80% færri launamenn hjá gjaldþrota fyrirtækjum

Af 82 fyrirtækjum í fyrirtækjaskrá Skattsins, sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á öðrum ársfjórðungi 2022, voru 18 með virkni á fyrra ári.

Þar af voru fimm í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, tvö í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum, tvö í einkennandi greinum ferðaþjónustu og níu í öðrum atvinnugreinum.

Þetta eru talsvert færri fyrirtæki ef borið er saman við sama tímabil á fyrra ári en þá voru þau 72.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.

Graf/Hagstofa Íslands

Fyrirtæki sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á öðrum ársfjórðungi 2022 höfðu að jafnaði um 101 launamann árið áður sem er um 80% fækkun frá öðrum ársfjórðungi 2021 þegar launamenn gjaldþrota fyrirtækja voru 498.

Í tilkynningunni segir að hvort sem miðað er við fjölda launafólks eða virðisaukaskattskylda veltu á fyrra ári má merkja minni áhrif gjaldþrota á öðrum ársfjórðungi 2022 en á sama ársfjórðungi árið áður í öllum helstu atvinnugreinaflokkum.

Samtals voru 28 fyrirtæki, sem skráð voru í fyrirtækjaskrá Skattsins, tekin til gjaldþrotaskipta í júní síðastliðnum. Af þeim voru níu með virkni á fyrra ári, það er annað hvort með launþega samkvæmt staðgreiðsluskrá eða veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum, sem er 68% fækkun frá júní 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert