Allir farþegarnir enn á landinu

Allir 266 farþegar vélarinnar eru enn í landi en enginn …
Allir 266 farþegar vélarinnar eru enn í landi en enginn þeirra er í haldi lögreglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan hefur engan grunaðan um að bera ábyrgð á sprengjuhótuninni sem fannst í gær í Airbus-flugvél sem var á leið frá Frankfurt í Þýskalandi til Seattle í Bandaríkjunum. Allir 266 farþegar vélarinnar eru enn á landinu en enginn þeirra er í haldi lögreglu og verður þeim öllum gert kleift að ferðast til Seattle í flugi sem mun yfirgefa landið klukkan 12 í dag. Reiknað er með að flestir nýti sér þann kost þó sumir treysti sér mögulega ekki um borð í flugvél strax aftur.

Þetta segir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum í samtali við mbl.is.

Úlfar segir farþegana hafa brugðist ágætlega við og að þeir hafi verið samvinnufúsir og sýnt þessu skilning. Síðustu farþegar vélarinnar yfirgáfu flugstöðina í kringum miðnætti í gær. Þeim var síðan öllum útvegað gistipláss þar sem þeir dvöldu í nótt.

Sprengjuhótunin var skrifuð á spegil í flugvélinni. „Það er sprengja, stóð þarna á ensku,“ tekur Úlfar fram en vildi ekki tjá sig með hverju hótunin var skrifuð. 

Öllum farþegum boðin áfallahjálp

Að sögn Úlfars gengu aðgerðir lögreglu mjög vel í gær og lauk vinnu þeirra á þriðja tímanum í nótt þegar þau höfðu lokið við að leita í öllum farangri farþega og í vélinni sjálfri. „Þetta er tímafrekt,“ segir Úlfar. 

Hann bætir við að allt hafi verið með kyrrum kjörum á flugvellinum og að farþegar og aðrir hafi haldið ró sinni. „Ég veit ekki til þess að neitt ástand hafi skapast.“

„Þetta er erfið staða til að lenda í fyrir flugfarþega og það er allt gert til að þessu fólki líði bærilega,“ segir Úlfar en öllum farþegum var boðið upp á áfallahjálp frá Rauða krossinum á flugstöðinni sem að þó nokkrir nýttu. 

Úlfar segir málið nú vera til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Spurður hvort að þeir hafi haldlagt eitthvað eftir leit í vélinni segir Úlfar að lögreglan hafi safnað saman gögnum sem voru síðan send til frekari rannsóknar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert