Andlát: Guðrún Valdimarsdóttir

Guðrún Valdimarsdóttir frá Teigi.
Guðrún Valdimarsdóttir frá Teigi. mbl.is/Árni Sæberg

Guðrún Valdimarsdóttir húsfreyja lést í fyrradag, 102 ára að aldri.

Hún fæddist 12. mars 1920 í Brunahvammi í Vopnafirði. Foreldrar Guðrúnar voru Guðfinna Þorsteinsdóttir (Erla skáldkona) frá Krossavík og Pétur Valdimar Jóhannesson frá Syðri-Vík. Hún var annað barn foreldra sinna en alls voru systkinin níu talsins.

Þegar Guðrún var tveggja ára gömul flutti fjölskyldan sig af heiðinni að Hróaldsstöðum í Selárdal þar sem hún bjó næstu tvö árin. Þaðan lá leiðin að Felli í Hofsárdal og árið 1927 flutti fjölskyldan að Teigi í Hofsárdal, þar sem hún festi rætur. Guðrún sótti farskóla sem oftast var á Hofi.

Á unglingsárunum vann hún ýmis störf eins og þá tíðkuðust, var í vist á bæjum í Vopnafirði og sem ráðskona í vegagerð á Vopnafjarðarheiði. Sautján ára gömul fór hún til náms í Húsmæðraskólann á Hallormsstað þar sem hún stundaði nám í tvo vetur.

Að námsárum loknum réð hún sig í vist að Seljatungu í Flóa þar sem hún kynntist verðandi eiginmanni sínum, Þorsteini Sigurðssyni húsasmið, f. 21.4. 1913, d. 19.10. 1992. Hófu þau búskap í Reykjavík þar sem Þorsteinn vann við smíðar og þar fæddust þeim fyrstu börnin.

Árið 1945 fluttu þau á Selfoss þar sem Þorsteinn hafði fengið starf við iðn sína og bjuggu þau þar alla sína búskapartíð. Eftir að Guðrún var búin að koma upp fimm börnum leitaði hún út á vinnumarkaðinn og starfaði í nokkur ár í eldhúsi Sjúkrahússins á Selfossi.

Guðrún var tónelsk og hafði fallega sópransöngrödd. Naut kirkjukórinn krafta hennar í nokkur ár og síðan söng hún með Hörpukórnum á Selfossi.

Börn Guðrúnar og Þorsteins: Stúlka, andvana fædd 1942, Valdimar, f. 1943, Þorsteinn, f. 1944, Erlingur, f. 1946, Trausti, f. 1949, Guðfinna, f. 1951. Barnabörnin eru 16 talsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert