Útlit er fyrir mikið vatnsveður á Suðurlandi á morgun, einkum við Eyjafjöll og í Mýrdal, segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur Bliku og Vegagerðarinnar.
Mjög mun vaxa í ám í Þórsmörk og verða þær að líkindum ófærar með öllu. Fram eftir morgundeginum má reikna með 15-20 m/s og sandfoki á Sprengisandi, Dyngjusandi og við Öskju.
„Það slá ýmis útgildi úrkomu á morgun í þessari sunnanátt, sérstaklega syðst á landinu á suðurjöklum. Það er lægð sem fer þarna vestan landið og skilin hennar verða hægfara yfir Suðurlandið, þar sem það rignir af mikilli ákefð í allt að sólarhring. Þess vegna er hætt við miklum vatnavöxtum,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Við þetta bætist jöklaleysing að sögn Einars þar sem loftið er hlýtt. Hann segir úrkomuna mikla miðað við árstíma.
„Við sjáum þessi gildi frekar á haustin. Þessi mesta úrkoma er á tiltölulega mjóu belti og það er óvissa hvar hún kemur.
Það gæti lent á Eyjafjöllum og myndi það valda miklum vatnavöxtum inn í Þórsmörk og eins líka, en ekki jafn mikið, í Landmannalaugum og Fjallabaki.“
Aðspurður segir hann að með morgundeginum gangi úrkoman yfir og það sjatni í ám.