Astmalyfið Ventoline er loksins væntanlegt til landsins í dag en það hefur ekki verið fáanlegt í apótekum í rúma viku, eða frá 15. júlí.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.
Í svari Distica, fyrirtækisins sem sér um innflutning lyfsins, við skriflegri fyrirspurn Morgunblaðsins segir að afhendingarerfiðleikar hjá framleiðanda hafi orsakað það að lyfið fór á bið.
Þar kemur einnig fram að átta þúsund pakkar séu væntanlegir með sendingunni í dag.
Samkvæmt upplýsingum á vef apóteksins Lyfju er Ventoline skjótvirkt astmalyf en salbútamól, virka efni lyfsins, veldur vöðvaslökun í lungnaberkjum, víkkar með því öndunarveginn og auðveldar öndun.
Lyfinu er ætlað að slá fljótt á einkenni astma en það hefur aftur á móti ekki áhrif á sjúkdóminn sjálfan og eru áhrif virka efnisins því nokkuð skammvinn.