Engin hátíð kemur í stað Mýrarboltans

Mýrarbolti.
Mýrarbolti. mbl.is

Lítið verður um hátíðarhöld yfir verslunarmannahelgina á Vestfjörðum en líkt og mbl.is greindi frá fer Mýrarboltinn ekki fram í Bolungarvík þetta árið. Baldur Smári Einarsson, bæjarfulltrúi í Bolungarvíkurkaupstað, segir enga hátíð koma í stað fótboltamótsins í ár eftir því sem hann best veit.

Skipuleggjendur Mýrarboltans sögðu í samtali við mbl.is ástæðu þess að mótið færi ekki fram í ár vera Covid-19 faraldurinn.

Sömu sögu að segja af Ísafirði

„Það sama verður í gangi og venjulega í þjónustu á svæðinu. Það er mjög fínt tjaldsvæði hérna og sundlaug og veitingastaðir. Það er ýmiskonar afþreying hérna sem hægt er að sækja í,“ segir Baldur í samtali við mbl.is.

Sömu sögu er að segja af Ísafirði. Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri á Ísafirði, segir að sjaldnast hafi verið mikið skipulagt yfir verslunarmannahelgina. Spurð hvort það sé hefð fyrir rólegri stemmingu á svæðinu segir hún að svo sé.

„Það hefur verið það. Samvera með fjölskyldu og útleiga.“ 

Ísafjörður.
Ísafjörður. mbl.is/Sigurður Bogi

Fjör og gleði á Flateyri

Íbúar á Vestfjörðum þurfa hins vegar ekki að örvænta því á Vagninum á Flateyri verður fjöldi tónleika.

„Á föstudaginn kemur Mugison fram. Á laugardaginn spila Geirfuglar þar sem Celebs hita upp og á sunnudaginn spilar Dr. Gunni og hljómsveit og lokar helginni,“ segir Birna Sigurbjörnsdóttir, veitingastjóri Vagnsins, í samtali við mbl.is.

Hún bendir fólki á að panta miða í tæka tíð en að hennar sögn er mikið um ferðamenn á svæðinu um þessar mundir. 

Gönguhátíð í Súðavík

Þá verður gönguhátíð í Súðavík sem stendur yfir verslunarmannahelgina. Á hátíðinni verður gengið Hattardalsfjall, Lambadalsskarð, Valagil o.fl. daganna 29. til 31. júlí.

Yfir hátíðarhöldin verður hægt að fara á barsvar (pub quiz) á Melrakkasetrinu og ball í samkomuhúsinu í Súðavík. 

Uppfært kl. 13.25

Vagninn í Flateyri.
Vagninn í Flateyri. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert