Farþegunum brugðið eftir sprengjuhótunina

Farþegum var brugðið þegar vél þeirra þurfti að nauðlenda á …
Farþegum var brugðið þegar vél þeirra þurfti að nauðlenda á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

„Að sjálfsögðu var farþegum brugðið. Þegar flugvél er snúið við í lofti og lendir í svona er mikilvægt að fólk fái sálrænan stuðning,“ segir Björg Kjartansdóttir sviðsstjóri yfir fjáröflunum og kynningarmálum hjá Rauða krossinum á Íslandi.

Viðbragðshópur frá Rauða krossinum var sendur á Keflavíkurflugvöll klukkan sjö í gærkvöld þegar flugvél þurfti að nauðlenda á Íslandi vegna sprengjuhótunar.  

Vélin, sem var á vegum þýska flugfélagsins Condor, var á leið frá Frankfurt í Þýskalandi til Seattle í Bandaríkjunum þegar orðið „bomb“, eða sprengja, var skrifað á salernisspegil í vélinni. Sá sem það skrifaði var ekki fundinn þegar vélin fór aftur í loftið síðdegis í kvöld. 

Farþegar fengu mat

„Það helsta sem við gerum í þeim aðstæðum er í raun og veru að veita sálrænan stuðning. Síðan hjálpaði Rauði krossinn líka til við að dreifa mat til farþeganna. Og auðvitað taka svona aðstæður á, fólk fer inn á lokað svæði og verður að dvelja þar. Fólk fær ekki að yfirgefa svæðið,“ segir Björg.

Þegar vélin lenti Keflavík tók við strangt öryggisferli og var leitað á öllum farþegum og var viðbragðshópurinn á svæðinu í fimm klukkustundir. Starfsfólk hjálpaðist að við að miðla upplýsingum til gestanna sem fengu síðan gistingu, áður en haldið var í flug í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert