Fyrirhugað frumvarp rímar ekki við vinnu starfshóps

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu félags fanga á Íslandi.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu félags fanga á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Ekki var tímabært að birta áform heilbrigðisráðherra um fyrirhugað frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta fyrir „veikasta hóp samfélagsins“ í samráðsgátt stjórnvalda. Starfshópurinn um afglæpavæðingu hefur ekki skilað af sér niðurstöðu en sú vinna sem hefur farið þar fram rímar heldur ekki við áform ráðherra.

Þetta segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu og einn þeirra sem skipar sæti í starfshóp heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta.

Hann segist jafnframt alls ekki vera sammála nálgun ráðherrans og myndi hann sjálfur ekki samþykkja „að fara að flokka og gera upp á milli fólks.“ 

Vinna hópsins forsenda framgangs málsins

Þann 22. febrúar skipaði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra 13 manna starfshóp um afglæpavæðingu neysluskammta. Hópnum var falið það hlutverk að vinna að endurbættu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni.

Átti hópurinn að skilgreina dagskammt eða neysluskammt í tengslum við framangreinda vinnu og er áætlað að setja þá skilgreiningu í reglugerð sem lögð verði fram með endurbættu frumvarpi.

Fyrr í mánuðinum voru áform heilbrigðisráðherra, um að leggja fram frumvarp um afnám refsingar fyrir „veik­asta hóp sam­fé­lags­ins í til­tekn­um til­vik­um með til­tekið magn og efni ávana- og fíkni­efna“, birt í samráðsgátt stjórnvalda.

Í svari Willums við skriflegri fyrirspurn mbl.is segir að málið sé í breiðu samráði í starfshópnum og sú vinna sé í raun forsenda framgangs málsins. Það verkefni hafi ekki breyst.

Fólk dáið vegna ótta við lögreglu

Að sögn Guðmundar Inga hefur starfshópurinn ekki skilað af sér niðurstöðum og telur hann líklegt að það muni ekki gerast fyrr en í byrjun næsta árs. Óeining innan hópsins hafi tafið fyrir vinnunni sem átti að ljúka í ágúst. 

Segir hann skoðanir fulltrúa skaðaminnkunar annars vegar, og skoðanir fulltrúa refsivörslukerfisins hins vegar, stangast á varðandi skilgreiningu á neysluskömmtum. 

Hópurinn sé þó nokkurn veginn á sama máli um að afglæpavæðingin verði að ná til allra, enda séu til að mynda til mörg dæmi um að fólk veigri sér við að hringja á aðstoð sjúkrabíls, af ótta við að vera gripið með neysluskammt. 

„Við vitum um mörg tilfelli þar sem fólk hefur dáið út af því.“

Veikasti hópurinn þurfi sérstaka aðstoð

Að sögn Guðmundar Inga hefur starfshópurinn vissulega komið inn á mikilvægi þess að veita þessum hópi, sem hefur verið skilgreindur sem „veikasti hópur samfélagsins“, sérstaka aðstoð, þar sem skortur er á slíku á Íslandi. Nefnir Guðmundur til að mynda sérstök meðferðarúrræði.

Ekki sé þó skynsamlegt að afglæpavæðingin eigi eingöngu við um „veikasta hópinn“, þar sem það krefjist flokkunar og jafnvel enn meiri jaðarsetningar.

Að sögn Guðmundar Inga mun starfshópurinn halda sínu striki og á hann ekki von á öðru en að góð niðurstaða fáist í málið. Mikil jákvæðni ríki gagnvart þessari vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert