„Þá er útlit fyrir slagviðri á vinsælum gönguleiðum á sunnanverðu hálendinu og að Fjallabaki og ættu göngu- og hjólreiðafólk að skoða spárnar vel áður en lagt er af staða á morgun.“ Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Í hugleiðingunum segir að lægð djúpt suður af landi valdi sunnanátt og rigningu á landinu í kvöld og á morgun, og sums staðar sunnanlands gæti rignt mikið.
Líkön benda sérstaklega til þess að mikil rigning verði undir Eyjafjöllum og Mýrdalsjökli. Því megi gera ráð fyrir að ár á leiðinni í Þórsmörk og aðrar óbrúaðar ár sem fara þarf yfir verði hættulegri yfirferðar en venjulega.
Hiti er almennt 10 til 18 stig, hlýjast suðaustanlands og á Norðurlandi.
Það styttir upp og léttir að mestu til á fimmtudag en á föstudag er næsta lægði í kortunum. Hún gæti hún valdið nokkrum leiðindum, bæði allhvössum vindi og rigningu um allt land á föstudag og laugardag.