Ísland gefur 80 milljónir til Afganistan

Mikið ófremdarástand ríkir í Afganistan.
Mikið ófremdarástand ríkir í Afganistan. AFP

Stjórnvöld á Íslandi munu veita 80 milljónum króna í sérstakan sjóð Sameinuðu þjóðanna til styrktar Afganistan. Markmið sjóðsins er að styðja við þróunarverkefni í landinu samhliða mannúðaraðstoð en mikið ófremdarástand er þar í landi.

Þetta kemur fram á vefsíðu Stjórnarráðsins.

Mikil neyð ríkir í Afganistan um þessar mundir en talið er að meira en 50 prósent Afgana sé í mikilli þörf fyrir mannúðaraðstoð vegna ýmissa hamfara sem hafa skeikað landið undanfarið. Sem dæmi má nefna jarðskjálfta sem varð þar í landi í júní sem varð meira en þúsund manns að bana. 

Þá ráða innviðir í landinu ekki við fjöldann sem þarf á heilbrigðisþjónustu og annarri þjónustu að halda. Félagslegir innviðir eru að hruni komnir og aðgengi að grunnþjónustu er afar slæmt.

Að því sem fram kemur á vefsíðu Stjórnarráðsins mun sjóðurinn forgangsraða verkefnum sem leggja áherslu á að tryggja grunnþjónustu, sjá fólki fyrir nauðsynjum, stuðla efnahagslegan bata, verja landbúnað gegn náttúruhamförum og auka viðnámsþrótt og félagslega samheldni.

„Algjört neyðarástand ríkir í Afganistan og þörfin á bæði mannúðar- og þróunaraðstoð ákaflega brýn. Því er afar mikilvægt að Ísland leggi sitt að mörkum til þess að bregðast við þeim hörmungum sem þarna hafa átt sér stað, bæði af völdum náttúru og manna,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra á vefsíðu stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert