Búist er við miklum vatnavöxtum undir Eyjafjöllum og er óljóst hvort brú, sem notuð er til bráðabirgða í stað brúar við Jökulsá á Sólheimasandi, standi af sér vatnavextina.
Vegna þessa vinnur Vegagerðin nú að því að dýpka farveg undir brúnni og undirbúa aðrar aðgerðir til þess að verja brúna, að því er fram kemur á vefsíðu Vegagerðarinnar.
Brúin er notuð til bráðabirgða á meðan framkvæmdir við nýja brú á svæðinu standa enn yfir.
Komi til þess að bráðbirgðabrúnni sé hætta búin verður umferð á Hringvegi um Jökulsá á Sólheimasandi fyrir austan Skóga hleypt á nýju brúna.
Umferðinni verður stýrt með ljósum til skiptis í hvora átt í ljósi þess að brúin er ekki fullgerð og án handriðs. Hraði verður lækkaður tímabundið vegna þessara aðstæðna biður Vegagerðin vegfarendur um að virða það.