Mjög fá dæmi eru um að úkraínskt flóttafólk hafi farið frá Íslandi af fjárhagsástæðum, að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, aðgerðastjóra teymis um móttöku flóttafólks frá Úkraínu.
„Við vitum að það hefur gerst erlendis að fólk fer frá því landi þar sem það sótti um vernd vegna þess hversu dýrt er að búa þar.
Hins vegar er það þannig hér á Íslandi að það hefur reynst tiltölulega auðvelt fyrir fólk að fá vinnu, þannig að fjárhagsaðstæður eru kannski ekki aðalástæðan hjá flestum. Auðvitað gæti það verið inn á milli, án þess þó að við vitum það,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is.
„Við vitum þó um einhverja tugi sem hafa farið aftur til Úkraínu og verið í burtu í mánuð eða svo, en hvort það fólk ætli sér svo að koma aftur til Íslands er ekki vitað.“
Hann segir eðlilegt að fólk snúi aftur til að huga að ættingjum sínum, vinum eða eignum og komi svo jafnvel til baka.
Háskólinn á Bifröst útvegaði 150 flóttamönnum húsnæði í aprílbyrjun, ýmist garðsherbergi eða íbúðir. Úrræðið er fjármagnað af ríkinu og segir María Neves, samskiptastjóri Borgarbyggðar, að verkefnið hafi gengið mjög vel.
„Flóttafólkið sem kemur til okkar og er í þjónustuúrræði á vegum ríkisins borgar ekki húsaleigu. Fólkið er í þessu úrræði í mesta lagi tólf vikur og svo fer það út á almennan vinnu- og leigumarkað. Í dag eru 104 úkraínskir flóttamenn á Bifröst,“ segir María í samtali við mbl.is.
„Ríkið hefur gert þjónustusamning við þrjú sveitarfélög, þar á meðal Borgarbyggð, og leigir umrætt húsnæði beint af Háskólanum á Bifröst.“
„Samfélagið í heild sinni tók þátt í þessu með okkur með því að aðstoða við að koma upp aðstöðu, gefa föt, rúmföt, leikföng og fleira fyrir fólkið og það hefur rúllað mjög vel.
Í hvert sinn sem kallað er eftir aðstoð, bregst samfélagið fljótt við, sem við erum mjög þakklát fyrir. Þetta er ótrúlega fallegt samfélagsverkefni og við finnum vel fyrir samheldninni frá íbúum og öðrum velunnurum verkefnisins,“ segir María.