Segir ringulreið hafa gripið um sig í flugvélinni

Þegar farþegar komu úr vélinni þurftu þeir að skilja handfarangurinn …
Þegar farþegar komu úr vélinni þurftu þeir að skilja handfarangurinn sinn eftir á flugbrautinni og svo leitaði lögregla á þeim. Ljósmynd/Aðsend

„Fólk byrjaði að tala um að baðherbergin virkuðu ekki og stuttu eftir það var baðherberginu lokað með límbandi og snúið við. Okkur var tilkynnt að um væri að ræða tæknilega bilun og við vissum ekki raunverulegu ástæðuna fyrr en vélin lenti.“

Þetta segir Cristina Thudium í samtali við mbl.is.

Hún er ein af 266 farþegum flugvélarinnar sem var á leið frá Frankfurt í Þýskalandi til Seattle í Bandaríkjunum í gær, þegar henni var snúið við og lent á Keflavíkurflugvelli vegna sprengjuhótunar sem var skrifuð á baðherbergisspegil í flugvélinni.

Cristina býr í Kaliforníu í Bandaríkjunum og var að ferðast með eiginmanni sínum Scott Thudium. Bjuggust þau við að lenda í Seattle í gærkvöldi, en í fluginu tók við atburðarás sem hún lýsir sem skelfilegri. 

Hún segir ringulreið hafa gripið farþegana þegar þeim var tilkynnt að snúa þyrfti flugvélinni við. Fengu þau þá að vita að um tæknilega bilun væri að ræða og að af þeim sökum þyrfti að lenda í Keflavík.

Sjálfa af Cristinu Thudium og eiginnmanni hennar Scott Thudium úr …
Sjálfa af Cristinu Thudium og eiginnmanni hennar Scott Thudium úr fluginu í gær, áður en flugvélinni var snúið við. Ljósmynd/Aðsend

Vissu strax að þetta væri alvarlegt

„Við vissum öll að þetta væri alvarlegt þegar við lentum og fórum úr vélinni og það var leitað á okkur og við beðin um að skilja handfarangur eftir á flugbrautinni.“

Að hennar sögn fengu hún og aðrir farþegar ekki fréttir um sprengjuhótunina fyrr en þau voru komin inn á flugvöllinn. 

Hún tekur þó fram að íslenska lögreglan hafi staðið sig með prýði og að allt hafi gengið smurt fyrir sig. 

„Við fengum samlokur og vatn frá Rauða krossinum sem var mjög hjálplegt,“ segir Cristina og þakkar Rauða krossinum fyrir vel unnin störf. Rauði krossinn bauð farþegum upp á áfallahjálp í Leifsstöð og segir Cristina marga hafa þegið hana.

Cristina gengur úr vélinni til móts við lögreglumennina.
Cristina gengur úr vélinni til móts við lögreglumennina. Ljósmynd/Aðsend

Líkað vel við Ísland

Hún tekur fram að viðbrögðin við aðstæðunum hafi verið frábær hjá flugfélaginu. Þau fengu að yfirgefa flugvöllinn rétt fyrir miðnætti og fóru með rútu á hótel þar sem þau dvöldu yfir nóttina. Bæði rútuferðin og gistingin voru í boði flugfélagsins og að hennar mati var gistingin fyrsta flokks. Flugið var á vegum flugfélagsins Condor.

Í lok samtalsins tekur Christina fram að henni hafi líkað vel við Ísland og að landið væri mjög fallegt þrátt fyrir stutt stopp. 

„Við munum að sjálfsögðu koma aftur við betri aðstæður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert