Heilbrigðisráðuneytið áformar að festa í sérlög ákvæði um uppsafnaða og hlutlæga refsiábyrgð. Með því væri hægt að sækja til saka lögaðila, þegar margir samverkandi þættir eða röð atvika eru orsök alvarlegs atviks, fremur en einstaka heilbrigðisstarfsmenn.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.
„Núverandi fyrirkomulag getur orsakað að fólk upplifi óöryggi í starfi. Það getur hamlað opinni umræðu sem getur valdið því að fólk láti ekki vita ef eitthvað fer úrskeiðis. Fólk verði hrætt við að vera sótt til saka ef eitthvað fer úrskeiðis,“ segir Marta Jóns Hjördísardóttir, formaður fagráðs Landspítalans. Fólki hafi verið órótt eftir að hjúkrunarfræðingur var árið 2012 ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Hann var síðar sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
„Það skiptir heilbrigðisstarfsfólk miklu máli að vita að þetta sé í almennilegu ferli og að stofnunin beri einhverja ábyrgð. Að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af að lenda í því að sæta lögreglurannsókn og vera ákært vegna alvarlegra atvika, líkt og áður hefur gerst,“ segir Marta.
Hún telur mikilvægt að ferli fari í gang, sem geri starfsfólki og stofnunum kleift að læra af atvikum. „Við störfum í flóknu umhverfi þar sem ýmislegt getur komið upp á og það hefur alveg sýnt sig í gegnum árin að það er ekki einhver ein manneskja sem gerir eitthvað heldur eru það margir samverkandi þættir sem verða til þess að alvarleg atvik gerast,“ segir hún. Hagur sjúklingsins sé ávallt í fyrirrúmi í þessum efnum. Þá megi lagaumgjörðin ekki orsaka að heilbrigðisstarfsfólk sé hrætt.
„Öryggismenning byggist meðal annars á opinni umræðu og því að hægt sé að læra af alvarlegum atvikum. Það er mikilvægt að lagaumhverfið styðji við slíka umræðu,“ segir Marta.
Með umræddum reglubreytingum verður unnt að koma fram refsiábyrgð á hendur heilbrigðisstofnunum, fremur en einstaka heilbrigðisstarfsfólki, þegar óvænt atvik leiða til dauðsfalls eða stórfellds líkamstjóns, enda megi rekja atvikið til margra samverkandi þátta í starfsemi heilbrigðisstofnunar. Jafnframt er til athugunar að gera breytingar á reglum um tilkynningarskyldu og rannsókn óvæntra atvika þannig að hún fari fyrst og fremst fram hjá embætti landlæknis en ekki einnig hjá lögreglu.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.