Bæjarbúi í Fáskrúðsfirði tók málin í sínar eigin hendur og bjargaði málunum fyrir Franska daga sem voru núna um helgina þar í bæ. Það gerði hann þegar hann setti lítinn franskan fána í blómabeð fyrir utan frönsku kapelluna, þar sem fánastöng stóð fyrir tæpum þremur árum síðan.
Þetta segir Jón Björn Hákonarson sveitarstjóri Fjarðabyggðar í samtali við mbl.is.
Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í síðustu viku hefur frönskum fána ekki verið flaggað fyrir utan frönsku kapelluna í Fáskrúðsfirði á Frönskum dögum síðustu tvö ár.
Það er sökum þess að fánastöngin hefur ekki verið endurreist síðan hún var keyrð niður fyrir tveimur og hálfu ári. Hún hefur því legið við hlið kapellunnar í næstum þrjú ár og fúnað.
Til stóð að endurreisa fánastöngina fyrir hátíðina í bænum, en Fosshótel sem á kapelluna og fánastöngina náði ekki að hafa nægilega hraðar hendur til að ná því að sögn Jóns.
„Við vorum búnir að tala við þá hjá hótelinu, sem voru að bíða eftir stöng sem kom ekki, og þá fór þessi maður og setti niður blómapott og franska fánann í það, og sagðist vera búinn að bjarga mér,“ segir Jón kíminn.
Aðspurður segir hann þá að bæjaryfirvöld séu búin að vera í sambandi við hótelið og að fánastöngin verði endurreist sem allra fyrst. Hann bætir þá við að fólk megi ganga út frá því að fánastöngin verði komin upp fyrir Franska daga 2023.
Jón tekur fram að þrátt fyrir að það hafi vantað fánastöng fyrir framan kapelluna hafi ekki verið neinn skortur á fánum í bænum og að hátíðarhöldin hafi gengið gífurlega vel.
„Hátíðarhöldin fóru vel fram og þetta var vel unnið af nefndinni sem sér um þetta. Það var flaggað um allan bæ og það er alls ekki skortur á fánastöngum hér í Fáskrúðsfirði.“