Tripical óheimilt að hækka verð útskriftarferðar

315 útskriftarnemum barst 15.000 króna rukkun frá ferðaskrifstofunni Tripical innan …
315 útskriftarnemum barst 15.000 króna rukkun frá ferðaskrifstofunni Tripical innan við mánuð fyrir brottför. AFP

Niðurstaða Neytendastofu er sú að ferðaskrifstofunni Tripical hafi verið óheimilt að hækka verð á pakkaferð útskriftarhópa til Krítar, tuttugu dögum fyrir brottför. Félagið rukkaði hvern þátttakenda aukalega um 15.000 kr. vegna töluverðra hækkana á eldsneytisverði. 

Þetta er niðurstaða Neytendastofu. 

Nemendur sendu kvartanir til Neytendastofu

Fjölmargir úr ferðahópnum sendu kvartanir á Neytendastofu vegna verðhækkananna. Haft var samband við þátttakendur í gegnum tölvupóst og tilkynnt verðhækkunina, en engar frekari útskýringar bárust ferðamönnunum. 

Að sögn Tripical var ferðin kynnt nemendum haustið 2021 og hún bókuð í janúar á þessu ári. Alls hafi 315 nemendur skráð sig og kostaði ferðin 209.990 krónur á mann. Til hafi staðið að flytja nemendurna með leiguflugi. 

Ferðaskrifstofan hafi skilmála til verðbreytinga

Í ábendingu Tripical segir að kostnaður við leiguflug taki ávallt mið af eldsneytisverði á þeim degi sem flogið er og ferðaskrifstofan sé með heimild til verðhækkunar í skilmálum sínum.

Kemur þá einnig fram að hver útskriftarnemi hafi samþykkt slíka skilmála við bókun ferðarinnar. 

„Tripical geri alltaf ráð fyrir einhverjum breytingum á verði, eins og eldsneyti og gengisbreytingum, þegar ferðir eru kynntar án þess að slíkar breytingar leiði til hækkunar á verði farmiða. Þær aðstæður sem undanfarið hafi verið uppi varðandi þróun á verði þotueldsneytis, séu hinsvegar langt fyrir utan það að vera eðlilegar markaðssveiflur.“

Sömu skilmálar eigi við hækkun og lækkun 

Í niðurstöðu Neytendastofu kemur fram að meginreglan sé sú að verð samnings um pakkaferð skuli haldast óbreytt.

Heimilt sé að gera verðbreytingu, meðal annars vegna hækkunar á eldsneytisverði samkvæmt lögum, en slíkt sé skilyrðum háð.

Í skilmálum Tripical var ekki heimild til verðlækkunar á verði pakkaferða af sömu ástæðum og verðhækkun, en í þessu tilviki var það vegna breytinga á eldsneytiskostnaði. Komst þá Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að Tripical hefði verið óheimilt að hækka verð ferðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka