Ætluðu rétt að kíkja í heimsókn

Adam Ingi við undirritun á sínum fyrsta atvinnumannssamningi við IFK …
Adam Ingi við undirritun á sínum fyrsta atvinnumannssamningi við IFK Göteborg í nóvember 2021. Með honum á myndinni er Christian Jaconelli Celona, starfsmaður Modyr Management, sem er umboðsskrifstofa Adams. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta gerðist nú bara allt fyrir mjög mikla heppni, þetta átti nú bara að vera fjölskylduferð til Gautaborgar sem endaði svo óvænt með samningi við IFK Göteborg,“ segir Adam Ingi Benediktsson sem siglir nú hraðbyri upp á stjörnuhimin téðs knattspyrnuliðs og hlaut þar nú fyrir skemmstu viðurkenningu fyrir frábæran karakter og árangur árið 2021.

Tildrög þessarar sérstöku atburðarásar voru að fjölskylda Adams, hjónin Iðunn Kjartansdóttir og Benedikt Gunnar Ívarsson ásamt þremur börnum, fóru til Gautaborgar árið 2018 til að heimsækja frændfólk og var Adam Ingi nær friðlaus yfir að geta ekki lagt stund á knattspyrnu meðan á dvölinni stóð, enda alfarið handgenginn þeirri íþrótt.

„Þannig að þau fundu þá lausn að ég fengi að æfa með IFK á meðan ég væri úti og eftir það vildu þeir fá mig hingað, það var ekkert planað áður en ég kom hingað,“ segir Adam sem nýtur þess stuðnings að hafa móður sína með í viðtalinu og nú tekur Iðunn við frásögninni.

Á höttunum eftir markmanni

„Kjartan bróðir minn er búinn að búa hérna í átta ár og við vorum að koma í heimsókn til hans og Adam var að fara á Gothia Cup [knattspyrnumótið] í leiðinni,“ segir móðirin af forsögu mála. Fjölskyldan hafi svo ákveðið að halda til Svíþjóðar viku fyrr en áætlað var og hafi Adam þá brugðist ókvæða við að missa af æfingum fyrir vikið.

„Þannig að haft var samband við Hjálmar Jónsson, íslenskan fyrrverandi leikmann hjá IFK Göteborg á þessum tíma sem við vissum reyndar ekki fyrr en seinna að var að þjálfa aldursflokk Adams,“ heldur Iðunn áfram. Hjálmar hafi tekið vel í að Adam fengi að kíkja á æfingu hjá IFK. Að Gothia Cup-mótinu loknu hafi sú staða komið upp að markmann vantaði í aldurshóp Adams Inga, sem fæddur er árið 2002. Upp úr því hafi boltinn farið að rúlla, í bókstaflegri merkingu, „og við sögðum bara hey, flytjum til Svíþjóðar, kýlum á ævintýrið og sjáum hvað gerist“, útskýrir Iðunn.

„Hey, flytjum til Svíþjóðar.“ Flóknara var það ekki fyrir fimm …
„Hey, flytjum til Svíþjóðar.“ Flóknara var það ekki fyrir fimm manna fjölskyldu frá Íslandi að söðla gjörsamlega um og hefja nýtt líf í nýju landi. „Just do it,“ eins og þeir Nike-forkólfar sögðu forðum. Frá vinstri: Adam Ingi Benediktsson, Hanna Karen Benediktsdóttir, Benedikt Gunnar Ívarsson, Iðunn Kjartansdóttir og Viktor Helgi Benediktsson. Ljósmynd/Aðsend

Ekki var látið sitja við orðin tóm heldur flutti fjölskyldan búferlum til Gautaborgar árið 2019 og foreldrarnir tóku sér bólfestu á sænskum vinnumarkaði, Iðunn kennir í grunnskóla og Benedikt, sem er tölvunarfræðingur, er um þessar mundir ráðgjafi hjá rafmagnsbílafyrirtækinu Polestar.

Ár í meiðsli og vesen

En knattspyrnumaðurinn ungi er að verða hálfutangátta í eigin viðtali. Hvernig hefur þessi óvænti sænski knattspyrnuferill gengið fyrir sig síðan hann hófst? „Þetta var svo sem ekkert auðvelt frá byrjun, ég eyddi heilu ári í meiðsli og vesen við að fá keppnisleyfi en með því að hlusta á þjálfarana og vera tólf tíma á dag á æfingasvæðinu fékk maður smá von um að fá samning,“ segir Adam af fyrstu misserunum í nýju landi.

Hann hóf feril sinn í FH á Íslandi í 8. flokki en skipti þaðan yfir í HK og var þá kominn upp í 3. flokk svo litið sé til ferilsins á fósturjörðinni. Lífið í Svíþjóð nú er að líkindum töluvert frábrugðið eða hvað?

Adam Ingi bikarmeistari með 3. flokki karla hjá HK árið …
Adam Ingi bikarmeistari með 3. flokki karla hjá HK árið 2018. Síðan er margt vatnið runnið til sjávar. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er heppinn ef ég fæ einn dag í viku frí núna, annars er þetta bara frá átta til fjögur,“ svarar Adam sem ákvað að fórna öllu fyrir boltann og hætti námi til að geta sinnt þessari ástríðu sinni af öllum mætti en eftir að hafa hafið framhaldsskólaferilinn í Menntaskólanum í Kópavogi skipti hann yfir í fjarnám í grunndeild byggingagreina við Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað eftir að fjölskyldan flutti til Svíþjóðar.

„Við sáum það bara að fótboltinn var farinn að vera átta til fjögur og jafnvel lengur,“ skýtur móðirin inn í til útskýringa, „og fjarnámið var þannig að hann átti að vera á ákveðnum tíma við tölvu og þá var hann kannski að spila leik einhvers staðar á landinu. Þannig að hann ákvað að taka sér pásu í bili,“ segir Iðunn sem er hvort tveggja kennari og náms- og starfsráðgjafi og sá í hendi sér að sonurinn yrði einfaldlega að velja og hafna.

Vill sjá Norðurlöndin stórveldi á ný

Adam spilar með meistaraflokki félagsins, er markmaður númer tvö. Keppnisferðalög þvers og kruss um Svíþjóð eru daglegt brauð og kveðst hann sitja að meðaltali þrjár klukkustundir á viku í rútu sem auk æfinga allan daginn hlýtur að reyna á þolrifin. „Ja, svona er þetta bara ef maður ætlar að sinna þessu og ég fékk snemma að heyra að best væri að reyna bara að venjast þessu, þetta væri ekkert að fara að verða auðveldara,“ segir knattspyrnumaðurinn ungi.

Adam Ingi stígur sín fyrstu skref sem markmaður á Skeljungsmótinu …
Adam Ingi stígur sín fyrstu skref sem markmaður á Skeljungsmótinu í Vestmannaeyjum árið 2012. Ljósmynd/Aðsend

Frístundirnar eru fáar og í þeim setur Adam fjölskylduna í forgang. „Maður veit aldrei hve langan tíma maður hefur með systkinum og mömmu og pabba, ef ég fer til Englands á morgun hitti ég þau ekki á hverjum degi svo ég reyni að verja eins miklum tíma með þeim og ég get,“ segir Adam sem dreymir glæsta framtíðardrauma á vettvangi íþróttar sinnar.

„Það sem mig langar að sjá er að Norðurlöndin verði aftur að því stórveldi sem þau voru, með næstu þremur kynslóðum, það er minn draumur,“ segir Adam Ingi Benediktsson, knattspyrnumaður hjá IFK Göteborg, að skilnaði.

Greið leið á sænskan vinnumarkað

Móðir hans kveður fjölskylduna kunna vel við sig í Svíaríki. „Við tókum þetta bara sem verkefni í tvö ár til að byrja með en nú erum við bara búin að koma okkur vel fyrir hér og selja allt heima og við sjáum okkur alla vega fyrir okkur hér nokkur ár í viðbót,“ segir hún.

Þá hafi þau hjónin runnið eins og bráðið smjör inn á sænskan vinnumarkað. „Benedikt er tölvunarfræðingur og hér er mikil vöntun á tölvunarfræðingum, forriturum og fleirum í þeim geira svo Gautaborg tók mjög vel á móti honum, hann er búinn að vera í mjög spennandi og skemmtilegum verkefnum,“ segir Iðunn og bætir því við að sjálf hafi hún átt greiða leið inn í skólakerfið enda með umfangsmikla reynslu frá fósturjörðinni.

Í fyrsta leik Allsvenska 2021 með IFK Göteborg.
Í fyrsta leik Allsvenska 2021 með IFK Göteborg. Ljósmynd/Aðsend

Sjálf bjó hún í Svíþjóð sem barn og átti því nokkurt forskot þegar kom að tungumálinu, „þótt mann vanti kannski stundum aðeins upp á þetta faglega og starfstengda mál. Benedikt er svo í þannig umhverfi að þar er vinnutungumálið mikið til enska en þegar hann talar sænsku er hún mjög dönskuskotin reyndar,“ segir Iðunn og hlær.

Besti ungi markmaður Svíþjóðar

Hún segir fjölskylduna ekki hafa mikið svigrúm til að heimsækja Ísland, Adam hafi til dæmis ekki komið þangað í tvö og hálft ár. „Það hafði nú minnst með Covid að gera. Hann átti að fá þriggja vikna frí hér um árið en þá komust þeir áfram í undir 19 ára liðinu í sænska meistaranum þannig að þriggja vikna fríið varð að vikufríi, hann þurfti að fara beint að æfa og keppa en endaði með bikarinn í hendi, varð sænskur meistari og auk þess valinn besti ungi markmaður Svíþjóðar,“ segir Iðunn Kjartansdóttir, stolt íslensk móðir í Gautaborg, við lok þessa spjalls við þau Adam Inga Benediktsson sem óvænt kom því til leiðar að stuttri heimsókn til Svíþjóðar lyktaði með flutningi þangað austur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert