Andlát: Bragi Þórðarson

Bragi Þórðarson.
Bragi Þórðarson. Ljósmynd/Sigurður Elvar Þórólfsson

Bragi Þórðarson, fyrrverandi prentsmiðjustjóri, bókaútgefandi og rithöfundur, er látinn, 89 ára að aldri. Bragi fæddist á Akranesi 24. júní 1933 og gekk þar í skóla. Hann lauk sveinsprófi í prentiðn (setningu) árið 1954 og öðlaðist meistarabréf árið 1957. Bragi starfaði í tæpa þrjá áratugi í Prentverki Akraness, fyrst við setningu en síðan sem prentsmiðjustjóri og einn af eigendum fyrirtækisins. Hann stofnaði ásamt Elínu eiginkonu sinni Hörpuútgáfuna árið 1960.

Árið 1982 seldi Bragi sinn hlut í Prentverki Akraness og sneri sér alfarið að útgáfustarfsemi og ritstörfum. Sama ár stofnuðu hann og Elín Bókaskemmuna, bóka- og tölvuverslun á Akranesi, sem þau ráku til ársins 1992. Hörpuútgáfuna ráku þau í hátt á fimmta áratug eða til ársins 2007. Alls voru gefnir út um 500 titlar á starfstíma Hörpuútgáfunnar. Eftir Braga liggja alls 22 bækur þar sem hann ritaði einkum um þjóðlegan fróðleik tengdan Akranesi og Borgarfjarðarhéraði en einnig tvær ævisögur.

Bragi var mjög virkur í félagsmálum alla tíð. Hann sat m.a. í stjórn Félags íslenska prentiðnaðarins, í stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda, í stjórn Sögufélags Borgarfjarðar og í stjórn Bæjar- og héraðsbókasafns Akraness á árunum 1966-1996, þar af stjórnarformaður í 10 ár. Hann var skáti og virkur í skátastarfinu á Akranesi frá 1943, þar af félagsforingi Skátafélags Akraness um árabil. Hann vígðist í Oddfellowregluna árið 1960 og var virkur félagi til æviloka. Þar gegndi hann fjölmörgum trúnaðarstörfum bæði fyrir stúku sína og regluna á landsvísu.

Heiðursborgari Akraness

Bragi hlaut Borgfirsku menningarverðlaunin og Menningarverðlaun Akraneskaupstaðar árið 2004. Sama ár var hann gerður að heiðursfélaga í Félagi íslenskra bókaútgefenda. Hann var sæmdur heiðursmerki Oddfellowreglunnar árið 2005 og árið 2006 varð hann heiðursfélagi í Skátafélagi Akraness. Bragi var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2007.

Árið 2018 veitti bæjarstjórn Akraness honum nafnbótina heiðursborgari Akraness.

Efirlifandi eiginkona Braga er Elín Þorvaldsdóttir og eignuðust þau tvö börn, Þorvald og Bryndísi. Barnabörnin eru fjögur og eitt barnabarnabarn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka