Rishraðinn í Öskju er óvenjumikill, ef miðað er við sambærileg eldfjöll í heiminum.
„Skjálftavirkni hefur ekki verið mikil samfara þessu, hugsanlega vegna þess að áður en núverandi ristímabil hófst þá var viðvarandi landsig í Öskju síðastliðna áratugi,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Fulltrúar Veðurstofunnar funduðu á mánudag með vísindamönnum frá Jarðvísindastofnun HÍ ásamt fulltrúum almannavarna um þróun mála í Öskju síðustu mánuði þar sem landbreytingar og jarðskjálftagögn voru rædd.
Landris við Öskju mælist mest um 35 sm en miðja þess er vestan við Öskjuvatn.
Í tilkynningunni kemur fram að nú hafi skýrari mynd fengist á landrisið með úrvinnslu og túlkun gervitunglamynda eftir að snjóa hefur leyst á svæðinu. Landrisið stafar af þrýstiaukningu í rótum eldstöðvarinnar og er ástæða þess talin vera söfnun kviku grunnt í jarðskorpunni. Líkanreikningar benda til þess að dýpi kvikusöfnunarinnar sé um 2 km og að kvikan dreifi sér þar lárétt í jarðskorpunni í miðju eldstöðvarinnar.
Sviðsmyndir eru óbreyttar en búist er við að aukin skjálftavirkni verði skýr aðdragandi að frekari kvikuhreyfingum neðanjarðar eða eldgosi. Líklegast ef til eldgoss kemur er að það verði sprungugos í nærumhverfi öskjunnar.
„Mælingar á eldfjöllum með þroskuðum öskjum, eins og í tilfelli Öskju, sýna að þar geta orðið miklar jarðskorpuhreyfingar án þess að til eldgoss komi, jafnvel þannig að hreyfingar nemi meir en einum metra áður en til eldgoss komi,“ segir í tilkynningunni.
Ekki er þó útilokað að í tilfelli Öskju verði fyrirvarinn stuttur, jafnvel talinn í klukkustundum.