Björg Bjarnadóttir nýr framkvæmdastjóri SGS

Björg Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands
Björg Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands Ljósmynd/SGS

Björg Bjarnadóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands (SGS) og mun hún hefja störf 1. október. Ráðningarferlið var í höndum Hagvangs og alls sóttu 13 umsækjendur um stöðuna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SGS.

Segir þar að Björg búi yfir víðfeðmri reynslu í starfsemi stéttarfélaga en hún starfaði sem skrifstofustjóri hjá einu af aðildarfélögum SGS í um 13 ár. Frá 2018 hefur hún starfað við kennslu í Fjölbrautarskóla Vesturlands ásamt því að gegna stöðu forstöðumanns bókasafns og sjá um skjalavörslu fyrir fjölbrautarskólann.

Starfað sem ráðgjafi

Þá hefur hún starfað sem VIRK-ráðgjafi fyrir öll stéttarfélögin á Akranesi og var einn af fyrstu ráðgjöfum sjóðsins og tók þátt í þróun og uppbyggingu þjónustunnar frá upphafi. Hún sat sem aðalamaður í stjórn Festu lífeyrissjóðs frá árinu 2013 til 2015 og síðar sem varamaður frá 2015 til 2017. Þá hefur hún gegnt ýmsum félags- og sjálfboðaliðastörfum.

Björg hefur MIS-gráðu í upplýsingafræði sem og viðbótardiplómu í opinberri stjórnsýslu, kennsluréttindi á meistarastigi og starfsréttindi sem grunn- og framhaldsskólakennari. Auk þess er hún með BA-próf í íslensku og stúdentspróf af félagsfræðibraut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert