Um fjórðungur bryggju í Reykhólahöfn gaf eftir og hrundi ofan í sjóinn í morgun. Þetta staðfestir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri Reykhólahrepps í samtali við mbl.is.
Að sögn Birnu var Vegagerðin að grafa í sjónum við bryggjuna vegna framkvæmda sem standa yfir en ætlunin var að stækka höfnina og slá nýju stálþili um bryggjuna.
„Það er búið að vera að grafa hringinn í kringum bryggjuna til að undirbúa niðurrekstur stálþilsins. Svo virðist vera að það hafi farið jarðvegur undan bryggjunni og þetta bara brotnaði niður.“
Birna segir þó að ekki sé endilega um mistök að ræða og tekur fram að bryggjan sé löngu komin til ára sinna.
Hún bæti við að um mjög mikið tjón sé að ræða og bendir á að þörungaverksmiðjan sé að landa þarna á bryggjunni á hverjum degi. Óljóst er hvort hún muni getað haldið áfram rekstri í bráð eða hvort að töf verði á framleiðslu hjá verksmiðjunni.
Hún tekur þó fram að Vegagerðin sé strax búin að taka málin í sínar hendur og ætli að tryggja að starfsemi geti haldið áfram á bryggjunni sem allra fyrst.
„Það eru að koma vinnutæki í hádeginu og fjöldi verktaka frá Vegagerðinni og þau ætla að gera við bryggjuna.“
Hún segir að Vegagerðin muni byrja á því að gera við bryggjuna þannig að tæki geti ferðast á öruggan máta fram hjá gatinu svo að starfsemi geti gengið sinn vanagang hjá þörungaverksmiðjunni.
Hún segir það óvíst hve mikinn tíma framkvæmdin mun taka en segir að það muni líklegast taka nokkra daga.
Birna bendir á að þótt að um mikið tjón sé að ræða hefði þetta getað farið talsvert verr.
„Það er bara heppilegt að enginn var að vinna þegar þetta gerðist,“ segir hún og bætir við að það hefði getað verið stórhættulegt.