Forseti Pakistan hrósaði John Snorra

John Snorri og Lína Móey.
John Snorri og Lína Móey.

Lína Móey Bjarnadóttir, ekkja John Snorra, fundaði með Arif Alvi, forseta Pakistans, í dag. Dóttir John Snorra og systur hans voru einnig viðstaddar, ásamt kanadíska kvikmyndatökumanninum Elia Saikaly, sem fékk að fylgjast með.

Samkvæmt umfjöllun Associated Press of Pakistan vottaði forsetinn fjölskyldunni samúð sína en ríflega ár er liðið frá því að John Snorri gerði tilraun til að klifra upp K2 fjallið að vetrarlagi, þar sem hann fórst. Með honum í för voru fjallagarparnir Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr. Þeir komu frá Pakistan og Síle.

Fjölskylda John Snorra lagði af stað til Pakistan á sunnudaginn í þeim tilgangi að ljúka leiðangri hans. Fyrr í þessum mánuði óskaði hún eftir að hann yrði færður og grafinn þar sem vinir hans sem voru með í för voru grafnir. 

John Snorri gegnt mikilvægu hlutverki

Í gær greindi Lína Móey frá því á samfélagsmiðlum að hún myndi fara í morgunsjónvarpið í dag hjá næst stærstu sjónvarpsstöð Pakistans og í framhaldi af því myndi fjölskyldan hitta forseta landsins.

Á fundinum sem fór fram í dag lýsti forsetinn John Snorra sem þekktum fjallgöngumanni sem hefði gegnt mikilvægu hlutverki í að vekja athygli á fjallamennsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert