Isavia mun taka til skoðunar gjaldskrá innanlandsflugvalla þegar þjónustusamningur íslenska ríkisins við Isavia um rekstur innanlandsflugvalla á Íslandi verður endurskoðaður á næsta ári.
Fram kom í Fréttablaðinu í dag að dýrara væri að leggja bíl í bílakjallaranum á Hafnartorgi en fyrir einkaflugvél að leggja á Reykjavíkurflugvelli.
Þannig kostar það 35.485 fyrir einkaflugvél í minni kantinum að leggja í fimm daga á flugvellinum en 39.999 krónur að leggja þann tíma á Hafnartorgi.
Segir í tilkynningu frá Isavia að gjaldskráin hækki í apríl ár hvert en samkvæmt ákvæðum þjónustusamnings er sú hækkun byggð á launa- og neysluvísitölu eins og hún stendur í septembermánuði árið á undan.
„Vinna við gerð nýs samnings hefst um næstu áramót. Þá verða ýmsir fletir samningsins skoðaðir og má gera ráð fyrir að gjaldskrá verði þar á meðal,“ er haft eftir Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, framkvæmdastjóra innanlandsflugvalla Isavia, í tilkynningunni.