„Hefði kannski átt að fella þess­ar ferðir niður“

Tripical rukkaði hvern þátt­tak­enda auka­lega um 15.000 kr. vegna tölu­verðra …
Tripical rukkaði hvern þátt­tak­enda auka­lega um 15.000 kr. vegna tölu­verðra hækk­ana á eldsneytis­verði. AFP

Elísabet Agnarsdóttir, framkvæmdastjóri og einn eigenda ferðaskrifstofunnar Tripical, segir í samtali við mbl.is að hækkun á verði pakkaferða 20 dögum fyrir brottför sé eðlileg og sanngjörn. 

Neytendastofa birti niðurstöðu í gær sem segir að Tripical hafi verið óheimilt að hækka verð á pakka­ferð út­skrift­ar­hópa til Krít­ar, tutt­ugu dög­um fyr­ir brott­för, vegna hækkunar á eldsneytisverði. 

Endurgreiða 315 nemendum aukagjald

Ferðaskrifstofan stendur að baki pakkaferðum fyrir útskriftarhópa til Krítar og er lágmarksgjald til þátttöku 209.990 krónur fyrir fjögurra manna herbergi, en hækkar ef fámennara herbergi er valið.

Þess má geta að útskriftarhópar úr fjórum mismunandi framhaldsskólum bókuðu ferðir þangað með Tripical í ár. 

Elísabet segir að Tripical muni hlíta úrskúrði málsins og endurgreiða 315 nemendum aukakostnað sem átti að dekka verðhækkunina en hún telur samt sem áður að gjaldtakan sé í samræmi við skilmála ferðaskrifstofunnar.

76 prósenta hækkun á eldsneytisverði

Tripical flutti nemendurna með leiguflugi, en í skilmálum hennar segir að kostnaður þess miðist við eldsneytisverð á degi brottfarar. 

„Kostnaðurinn hækkaði um 22.330 kr. á hvern farþega og reyndum við að koma til móts við nemendur með því að borga stóran hluta kostnaðarins sjálf.“

Var þá nemendum boðið upp á þann möguleika að borga 10.000 krónur í stað 15.000 króna með þeim skilyrðum að greitt væri innan ákveðinna tímamarka. Flestir hafi nýtt sér þann möguleika í von um endurgreiðslu. 

„Í raun og veru hefði kannski bara átt að fella þessar ferðir niður miðað við þennan kostnað sem leggst á okkur, en þetta er líka auðvitað ömurlegt fyrir þátttakendur,“ segir Elísabet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka