Mikil heppni að engan sakaði

Finnur Árnason, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar, kveðst hafa brugðið í brún að …
Finnur Árnason, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar, kveðst hafa brugðið í brún að sjá stórt gat á bryggjunni á Reykhólum. Ljósmynd/Aðsend

Finni Árnasyni, framkvæmdastjóra Thorverks hf. sem heldur úti þörungaverksmiðjunni á Reykhólum, brá í brún í morgun þegar hann mætti til vinnu og sá að risastórt gat var á bryggjunni sem þörungaverksmiðjan notar til löndunar.

Eins og mbl.is greindi frá hrundi um fjórðungur bryggju í Reykhólahöfn í nótt eftir að Vegagerðin hafði verið að grafa í sjónum við bryggjuna. Finnur segir að tjónið muni mögulega tefja framleiðslu hjá þörungaverksmiðjunni um nokkra daga. 

Hann segir það einungis hafa verið háð tilviljun að enginn starfsmaður var á bryggjunni þegar hún hrundi, en það gerðist í nótt eins og áður sagði. Hrunið hafi í raun getað átt sér stað hvenær sem er, miðað við hversu mikið var búið að grafa undan bryggjunni.

Hann bendir á að holrúmið hafi greinilega myndast á nokkrum dögum og því tilviljun að bryggjan hrundi þegar enginn var á henni.

„Þetta er nú þegar farið á besta veg, það var enginn sem meiddist. Þetta hefði getað farið mjög illa, við erum oft með þungar vélar þarna,“ segir hann og ítrekar að það hafi verið mikil heppni að engan sakaði.

Svona blasti bryggjan við Finni þegar hann mætti til vinnu …
Svona blasti bryggjan við Finni þegar hann mætti til vinnu í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Mögulegt tjón fyrir rekstur

Spurður hvort að tjónið á bryggjunni muni koma til með að hafa áhrif á rekstur þörungaverksmiðjunnar segir Finnur að það fari alfarið eftir því hve tímafrekar viðgerðir Vegagerðarinnar munu vera. 

„Við höfum stöðvað allan þangslátt og það eru allir á leiðinni í land,“ segir Finnur og bætir við að ef viðgerðin dragist á langinn muni verksmiðjan þurfa að hætta allri framleiðslu. 

Hann segir þau hjá þörungaverksmiðjunni vera að leita allra lausna við þessu vandamáli og að það muni koma betur í ljós á morgun hvernig verði greitt úr þessu. Hann tekur fram að ef ákveðnar ráðstafanir verði gerðar sem fyrst muni þetta tjón ekki hafa áhrif á þau.

Gamla stálþilið farið að gefa sig

„Það tók okkur langan tíma að fá fjármögnun fyrir viðgerðina á bryggjunni í gegn,“ segir Finnur og vísar til þess að bryggjan sé mjög gömul, sem hafði lengi verið honum og öðrum ljóst.

Vegagerðin hafði staðið í framkvæmdum við bryggjuna áður en hún hrundi en áætlað var að stækka hana og styrkja með nýjum stálþiljum. 

Aðspurður segir hann ekkert vita um hvort að hægt hefði verið að koma í veg fyrir tjónið með því að hefja framkvæmdir við bryggjuna fyrr. 

„Þetta gerðist líklegast vegna þess að gamla stálþilið, sem var farið að gefa sig, náði ekki nægilega djúpt í undirstöðurnar.“

Er því um að ræða samverkandi ástæðu fyrir hruni bryggjunnar að mati Finns. Aldur bryggjunnar og framkvæmdir vegagerðarinnar hafi orðið til þess að hún hrundi.

Hann þakkar þá Vegagerðinni fyrir að hafa brugðist hratt við en hún hefur vinnu við bryggjuna strax í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka