Landsbankinn varar í tilkynningu við svikum sem hafa átt sér stað í nafni bankans.
Bankinn ítrekar að aldrei skuli staðfesta innskráningu eða millifærslu nema að viðkomandi aðili ætli sér raunverulega að skrá sig inn eða millifæra.
Óvíst er hvort hægt sé að endurheimta fé sem tapast með þessum hætti og þá getur viðkomandi aðili setið uppi með tjónið.
Fram kemur í téðri tilkynningu að í vikunni hafi bankinn orðið var við netsvik sem fólust í því að notendur voru lokkaðir inn á falsaða innskráningarsíðu fyrir netbanka Landsbankans.
Einhverjir viðskiptavinir bankans slógu inn notandanafn og lykilorð og þar með voru netþrjótar komnir með þær upplýsingar. Í kjölfarið fengu þeir beiðni frá svikurunum um að auðkenna sig, m.a. með því að gefa upp leyninúmer.
Í tilkynningu bankans segir að þessar upplýsingar nægi þó ekki til að svikararnir geti skráð sig inn í netbankann heldur verði að staðfesta innskráningu með því að veita samþykki, t.d. með því að slá inn auðkenningarnúmer sem berst með SMS.