Óhefðbundið skilti á leið til landsins

Frá torginu. Skiltið er sagt munu koma á næstu dögum.
Frá torginu. Skiltið er sagt munu koma á næstu dögum. Ljósmynd/Ólafur Stephensen

Þess má vænta að senn rísi skilti til að merkja Kænug­arð, eða svokallað Kýiv-torg, sem stend­ur á gatna­mót­um Garðastræt­is og Túngötu.

Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsviðs Reykjavíkurborgar, segir skiltið tilbúið en að verið sé að bíða eftir að það berist til landsins.

Úkraínskt-íslenskt hönnunarpar

Í fyrri frétt mbl.is um málið var greint frá gagnrýni Ólaf­s Stephen­sen, fram­kvæmda­stjóra Fé­lags at­vinnu­rek­enda, þar sem hann benti á að ekkert skilti væri að sjá á téðu torgi þrátt fyrir að tillaga þess efnis hefði verið samþykkt fyrir þremur mánuðum í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Ljósmynd/Aðsend

„Ástæða þess að þetta er búið að taka þennan tíma er vegna þess að Reykjavíkurborg fékk hönnunarstofu til að hanna skiltið. Skiltið verður um 297x420 millímetrar að stærð og það er úkraínskt-íslenskt hönnunarpar sem hannaði það," segir Ólöf í samtali við mbl.is.

Að sögn Ólafar var þörf á að senda skiltið út fyrir landsteinana svo að hægt væri að fá það emelerað, til að það gæti þolað alla veðrun. Reykjavíkurborg bíður nú eftir skiltinu en það er komið í sendingu.

„Það er að koma. Áætlaður flutningstími verksins er á milli 25. júlí til 2. ágúst, þannig að þess má vænta á næstu dögum.“

Blóm, sól og skjaldamerki

Ólöf kveðst spennt fyrir frumsýningu verksins. Um fallega hönnun sé að ræða með skírskotun til Úkraínu og Íslands. Skiltið er að sögn hennar svolítið óhefðbundið miðað við það sem við höfum séð hér á landi, þar sem það ber keim af myndmáli Úkraínu.

„Það eru mjúkar línur í því og blóm og sól. Svo er skjaldarmerki.“

Biðin sé senn á enda og að Reykjavíkurborg hafi viljað vanda til verka við gerð skiltisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert