Sakar verkefnastjóra Ljósleiðarans um lygar

Þykkvibær er í Rangárþingi ytra.
Þykkvibær er í Rangárþingi ytra. mbl.is/Sigurður Bogi

Landeigandi í Þykkvabæ segir það ekki satt að fjarskiptafyrirtækið Ljósleiðarinn sé búið að vera í sambandi við landeigendur frá því í fyrrahaust.

Elísabet Guðjónsdóttir, verkefnastjóri hjá Ljósleiðaranum, sagði í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is að Ljósleiðarinn hafi verið í samskiptum við landeigendur frá því í fyrrahaust og haft samband við hvern og einn landeiganda persónulega.

Kristín Bjarnadóttir, einn landeigenda, vissi ekki af ljósleiðaralögn milli Þjórsár og Hólsár og plægingu ljósleiðarastrengs um Þykkvabæ fyrr en um mánaðamótin apríl/maí á þessu ári. Hún segir engan landeiganda hafa vitað af þessum áformum síðasta haust nema mögulega einn.

Þá hefur hún heyrt af tveimur landeigendum sem enn hafa ekkert heyrt frá Ljósleiðaranum.

Vinnubrögðin forkostanleg

Kristín segir þessi vinnubrögð forkastanleg. „Þetta er bara dónaskapur og hroki sem maður hefur mætt í öllum tilsvörum og það er alveg sama hvað það er,“ segir hún.

„Það er alveg klárt mál að miðað við samskiptaleysið sem hefur verið að það eru allir hundfúlir og þeim verður gert eins erfitt og hægt er um vik að komast þarna í gegn.“ 

Hún segir fyrirtækið ekki enn hafa haft samráð við landeigendur um lagnaleið en að það hafi engu síður ákveðið hvaða leið ætti að fara.

„Þeir gleyma alveg að hafa samráð við menn um hvar þeir ætli að fara. Þetta er ekki sú leið sem að hugnast íbúunum best,“ segir Kristín.

„Það hefði verið rosalega sniðugt að tala við menn áður en að farið væri undir árnar svo menn væru meðvitaðir um hvað væri í gangi,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka