Rob Kamsma, hafnarsérfræðingur Vegagerðarinnar sem sér um framkvæmdir á bryggjunni í Reykhólahöfn, þvertekur fyrir að Vegagerðin hafi gert mistök sem hafi valdið hruni bryggjunnar.
Eins og mbl.is greindi frá hrundi fjórðungur bryggju í Reykhólahöfn í nótt.
Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri Reykhólahrepps sagði í samtali við mbl.is að það hefði gerst í kjölfar þess að Vegagerðin hafði verið að grafa við höfnina fyrir áætlaðar framkvæmdir.
Rob bendir á að verkið sé ekki á vegum Vegagerðarinnar heldur Reykhólahrepps og að verktökunum Borgarverk og Haftak hafi verið úthlutað að stækka höfnina og slá nýju stálþili um bryggjuna. Hann segir Vegagerðina aðeins koma að verkinu sem hönnunaraðili og umsjónaraðili.
„Þetta er ekki okkar framkvæmd, Reykhólahreppur er með framkvæmdina og við erum til aðstoðar. Þetta er allt á vegum Reykhólahrepps,“ segir hann.
Spurður hvort mistök hafi orðið til þess að bryggjan hrundi svarar Rob því neitandi. Hann segir hrunið hafa átt sér stað vegna samspils margra þátta.
„Þetta er mjög gamalt stálþil sem er tætt og fullt af götum.“
Hann staðfestir þó að Vegagerðin hafi verið að grafa þilskurð við bryggjuna áður en hún hrundi.
„Við grófum langt frá bryggjunni til að koma í veg fyrir þetta en það hefur verið galli á gamla stálþilinu. Það var ekki nógu stöðugt þegar við byrjuðum að grafa frá.“
Þegar mbl.is sló á þráðinn til Rob var hann að bíða eftir verktökum úr nærliggjandi firði svo að Vegagerðin gæti hafist handa við að fylla í holuna sem myndaðist í nótt. Segir hann höfuðástæðu þess vera að bjarga krana þörungaverksmiðjunnar sem er fastur hinum megin við holuna.
Hann reiknar með að framkvæmdir muni hefjast strax í dag. Að hans mati er þó erfitt að segja til um hvenær þörungaverksmiðjan sem landar á bryggjunni muni geta hafið starfsemi aftur.
Hann segir að þegar búið sé að fylla holuna verði hafist handa við að reka stálþil á bryggjuna eins og upprunalega var áætlað. Verktakarnir ætluðu upprunalega að hefjast handan í byrjun ágúst.
Hann segir óljóst hvort það muni tefjast og að það muni komast í ljós á morgun þegar þeir sjá hversu vel gengur að fylla í holuna.