Samkvæmt báðum helstu langtímaspám sem veðurfræðingar hér á landi miða við getur veðrið um verslunarmannahelgina farið á tvo mjög mismunandi vegu. Önnur spáin reiknar með lægð um allt land, norðvestan strekkingi og snjókomu til fjalla Norðurlands en hin spáin spáir engri lægð hér á landi á laugardagsmorgun.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur bendir á þetta á veðurvefnum Bliku og segir „nagandi óvissu“ ríkja um veðrið yfir verslunarmannahelgina í færslu sinni á Facebook.
Langtímaspárnar sem Einar vísar til eru annars vegar ECMWF (Evrópska reiknimiðstöðin) og GFS (ameríska spáin) en þær sýna mjög ólíka útkomu fyrir veðrið um verslunarmannahelgina.
Samkvæmt ECMWF-spánni á að vera töluverð lægð yfir landinu með úrkomu á laugardagsmorguninn en GFS-spáin reiknar ekki með því. GFS-spáin reiknar með talsvert hlýrra veðri og spáir fyrir þrýstiflatneskju yfir landinu og hvorki úrkomu né köldu lofti úr norðri, gagnstætt við ECMWF-spána.
Einar segir það vera háð tilviljun, hvor spáin eigi eftir að rætast. Ljóst þykir þó með hvorri spánni flestir Íslendingar halda enda margir í ferðahug fyrir komandi helgi.