Veðurspárnar fyrir helgina farnar að líkjast

Líkönin tvö eru farin að nálgast.
Líkönin tvö eru farin að nálgast. Kort/Veðurstofa Íslands

Tvær helstu langtímaspár sem veðurfræðingar hér á landi miða við eru farnar að líkjast hvor annarri um verslunarmannahelgina.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur bendir á þetta á veðurvefnum Bliku.

„Í gær var mikill munur, reyndar líka í morgun, en nú virðast þau vera að finna sporið og vonandi er það nálægt því að vera rétt,“ skrifar Einar.

Lang­tímaspárn­ar sem Ein­ar vís­ar til eru ann­ars veg­ar ECMWF (Evr­ópska reikni­miðstöðin) og GFS (am­er­íska spá­in) en þær sýndu mjög ólíka út­komu fyr­ir veðrið um versl­un­ar­manna­helg­ina.

Önnur dregur úr og hin bætir í

Einar segir ECMWF nú draga úr dýpkun lægðarinnar á meðan að GFS bætir heldur í. „Rétt eins og væri í góðum samningaviðræðum!“ skrifar Einar.

Hann bendir á að á vef Bliku megi gera þennan samanburð þar sem hægt er að velja ýmist hnapp Bliku-líkansins (GF) eða Veðurstofunnar (ECMWF) eftir að spástaður hefur verið valinn.

Spárnar gera ekki lengur ráð fyrir snjó niður undir miðjar hlíðar norðanlands og auk þess er vindur hægari og úrkoma yfirleitt minni.

„Þó getur lægðin hæglega komið nær landi en nú er spáð, þ.e. á sunnudag og þá með leiðinlegra veðri þá norðan- og norðaustanlands. Það verður alltaf að vera einhver óvissa í þessu“, skrifar Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert