Stefán Ólafur Guðmundsson og fjölskylda sjá eftir 100 þúsund krónum eftir að þrír í fjölskyldunni greindust með Covid-19 degi áður en þau ætluðu öll saman á Þjóðhátíð í Vestmanneyjum yfir verslunarmannahelgina.
Eftir að þrír höfðu greinst jákvæðir á PCR-prófi hafði fjölskyldan samband við Dalinn sem heldur úti Þjóðhátíð og báðu um að fá að færa miðana yfir á næsta ár eða fá endurgreiðslu svo þau myndu ekki smita aðra gesti á hátíðinni.
Dalurinn svaraði fyrirspurn fjölskyldunnar neitandi og sagði að það væri ekki möguleiki að færa miðana né endurgreiða og vísaði til reglna þeirra sem segja að ekki sé hægt að endurgreiða miða sem voru keyptir fyrir fleiri en 14 dögum síðan.
Að mati Stefáns þurfa svona reglur að endurspegla ástandið í þjóðfélaginu hverju sinni og finnst honum það einkennilegt að fjölskyldan fái ekki að færa hátíðarpassana sína yfir á næsta ár og bendir á að þau sem standi fyrir hátíðinni tapi ekki á því.
Þegar Stefán benti starfsmanni Dalsins á þetta svaraði starfsmaðurinn því til að Dalurinn ætlaði sér ekki að breyta reglunum núna og benti Stefáni á að hann gæti framselt miðana fjóra.
„Þetta er bara hroki og við erum að berjast við að reyna selja miðana en það vill enginn kaupa þá með svona stuttum fyrirvara,“ segir Stefán í samtali við mbl.is.
Hann spyr því hvort að Dalurinn vilji að hann og fjölskyldan mæti með kórónuveiruna á Þjóðhátíð og stefni þannig öðrum gestum hátíðarinnar í hættu.
„Svo þá er spurningin, er Dalurinn að hvetja okkur til að mæta með Covid-19 á þjóðhátíð og smita fólk hægri vinstri? Eða eigum við að henda 100 þúsund krónum til að geta verið ábyrgir einstaklingar?“
Hann segir þá að þessi atburðarás sé mjög „pirrandi“ þar sem að fjölskyldan hafi stefnt á að mæta á Þjóðhátíð í þó nokkur ár en hafði ekki komist vegna kórónuveirufaraldursins. Var mikil tilhlökkun til staðar hjá fjölskyldunni og um langþráða ferð að ræða.
„Málið er bara að svörin komu okkur svo sannarlega á óvart, í ljósi þess að við eigum öll að sýna ábyrgð og við erum öll saman í því að reyna að berjast við þennan vágest sem Covid-19 er.“
Hann tekur þá fram að eftir þessi svör frá Dalnum ætli þau sér ekki að mæta árið 2023.
„Þegar maður fær svona viðbrögð þá þorir maður ekki að taka áhættuna aftur.“