Slysavarnafélagið Landsbjörg hvetur fólk til þess að fara varlega um verslunarmannahelgina, hvort sem það er á hálendi, láglendi, útihátíð eða heima og eiga slysalausa helgi.
„Við erum með okkar fólk á hálendinu á hálendisvaktinni og helstu verkefni helgarinnar þar eru að brýna fyrir fólki að fara varlega yfir óbrúaðar ár og fylgjast vel með veðurspá. Annars eru björgunarsveitirnar á tánum eins og alltaf,“ segir Otti Rafn Sigmarsson, formaður Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
Gul viðvörun er enn í gildi og segir Otti að það hafi verið minna að gera hjá björgunarsveitum en búist var við.
„Það var svona rólegra en við áttum jafnvel von á, það voru örfá verkefni í gær og gekk bara ótrúlega vel, engin slys á fólki og engin vandræði þannig.“
Mikil rigning hefur verið á Suðurlandi undanfarna daga og leitt til vatnavaxta í ám.
„Auðvitað höfum við áhyggjur þegar það spáir einhverjum svona flóðum, en það var búið að vara tímanlega við þessu og það voru allir meðvitaðir um hvað var að gerast og þar af leiðandi voru færri á ferðinni og það skilar alltaf árangri.“