Borgarbúar segi hvar rampa er þörf

Við vígslu fyrsta rampsins í Reykjavík 14. apríl í fyrra.
Við vígslu fyrsta rampsins í Reykjavík 14. apríl í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reykjavíkurborg óskar nú eftir tillögum frá borgarbúum um hvar megi bæta aðgengi fatlaðs fólks í þeirra hverfi.

Kemur fram í tilkynningu frá borginni að það geti verið hvort sem er við skóla, sundlaugar eða bara við hverfasjoppuna.

„Flestir þekkja til verkefnis Haraldar Þorleifssonar um að Rampa upp Reykjavík en hann ásamt Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir því að nú er búið að setja upp á annað hundrað rampa í miðborginni til að auðvelda aðgengi fatlaðs fólks," segir í tilkynningu.

Kemur fram í kjölfar þess verkefnis hafi verið ákveðið að Rampa upp Ísland og bæta aðgengi fatlaðs fólks bæði í úthverfum borgarinnar og öðrum sveitarfélögum.

Nú geta íbúar í Reykjavík því farið inn á samráðsvef borgarinnar og hver og einn valið sitt hverfi og sagt til um hvar megi bæta aðgengi fyrir hreyfihamlaða í hverfinu.

Þá segir að tilgangur verkefnisins sé að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum í hverfum borgarinnar í samráði við íbúana.

Skjáskot úr samráðsvefnum.
Skjáskot úr samráðsvefnum. Skjáskot/Reykjavíkurborg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert