Covid-smitum virðist fækka

Nýgengi smita hefur farið niður.
Nýgengi smita hefur farið niður. mbl.is/Unnur Karen

Nýgengi kórónuveirusmita hefur lækkað og er nú um 800 á hverja 100 þúsund íbúa en smit eru um 200 á dag, miðað við um 300 á dag fyrr í sumar. Um 54% landsmanna hafa greinst með veiruna.

Flestir eða að minnsta kosti um 80% greinast með BA.5-afbrigðið, sem er meira smitandi en Ómíkron en álag á spítalann hefur haldist stöðugt. 

Þetta segir Guðrún Aspelund, yfirlæknir á sviði sóttvarna hjá embætti landlæknis. Flestir sem smitast eru með væg einkenni og þurfa ekki á innlögn að halda.

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir.
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Álag á spítalann stöðugt

„Þetta hefur verið stöðugt hér og það hefur ekki verið aukning. Vonandi er eitthvað farið í rétta átt,“ segir hún en erfitt er að segja til um raunverulegan fjölda smita, þar sem ekki er tryggt að allir fari í PCR-próf. Þeim hefur fækkað. „En hlutfall jákvæðra sýna hefur farið niður sem er gott.“

Ekki er útlit fyrir að BA.5 valdi alvarlegri veikindum en önnur afbrigði og er álag á Landspítala stöðugt. 

„Álagið hefur verið mjög stöðugt inni á spítalanum en það hefur ekkert minnkað heldur, líkt og við myndum vilja,“ segir Guðrún. Um 44 liggja á sjúkrahúsi með smit og eru þar af 3 í öndunarvél. Bólusetningin gengur vel að sögn Guðrúnar og eru enn þá allir velkomnir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert