Einstakt að þjóna í Noregi

Ingibjörg Davíðsdóttir, fráfarandi sendiherra, kveðst þakklát fyrir árin í Ósló …
Ingibjörg Davíðsdóttir, fráfarandi sendiherra, kveðst þakklát fyrir árin í Ósló og segist ávallt munu hafa heimatilfinningu fyrir Noregi sem hún reiknar fastlega með að heimsækja um ókomin ár eftir gefandi og ánægjulega dvöl sem þó litaðist óneitanlega að hluta af heimsfaraldri kórónuveirunnar. Ljósmynd/Myriam Marti Photography

„Ég tek góðar og fallegar minningar með mér frá Noregi. Að vísu hefur dvölin verið óvenjuleg að því leyti að heimsfaraldur geisaði stóran hluta tímabilsins og setti starfsemi sendiráðsins margvíslegar skorður, þannig að starf sendiherra hefur ekki verið með hefðbundnu sniði tvo þriðju hluta tímans í Noregi.“

Þetta segir Ingibjörg Davíðsdóttir, fráfarandi sendiherra Íslands í Noregi, í samtali við Morgunblaðið á skilnaðarstundu en Ingibjörg sneri heim til fósturjarðarinnar í fyrradag og fór af því tilefni yfir þau þrjú ár sem hún hefur verið í Noregi.

„Ég hefði  gjarnan viljað fá meira svigrúm í covid-lausu umhverfi, því tækifærin í samstarfi Íslands og Noregs eru óteljandi. Það þykir aldrei við hæfi að sendierindrekar tengist gistiríkinu of nánum tilfinningaböndum,“ segir sendiherrann fráfarandi. Engu að síður sé ekki hægt að neita því að böndin á milli Íslands og Noregs risti dýpra en samskipti Íslendinga við flest önnur ríki.

Ingibjörg ásamt sendiráðsstarfsstúlkum, f.v. Karí Jónsdóttir, Eva Mjöll Júlíusdóttir, Harpa …
Ingibjörg ásamt sendiráðsstarfsstúlkum, f.v. Karí Jónsdóttir, Eva Mjöll Júlíusdóttir, Harpa Ósk Einarsdóttir (sem látið hefur af störfum) og Margrét Gísladóttir. Myndin er tekin í kveðjuhófi í sendiherrabústaðnum í lok júní. Ljósmynd/freydisfoto.com

„Það er vegna upprunans, sameiginlegrar sögu og menningar frá fornu fari, nálægðar og hagsmuna, hvort sem það er í Evrópusamstarfi, öryggis- og varnarmálum eða á norðurslóðum. Það er einstakt að hafa fengið tækifæri til að þjóna sem fulltrúi Íslands í Noregi og finna fyrir þeirri velvild sem Íslendingar njóta í þessu víðáttumikla, heillandi og friðsæla landi,“ heldur Ingibjörg áfram.

Þjónusta við Íslendinga í Noregi

„Mér hefur alltaf þótt erfitt að kveðja, hvort sem það er fólk, staðir eða lönd, sérstaklega þar sem mér hefur liðið vel, og þrátt fyrir mjög erfitt tímabil þegar heimsfaraldurinn geisaði hvað harðast og takmarkanir ýmiss konar giltu hefur mér liðið mjög vel í Noregi. Ég mun hér eftir alltaf hafa „heimatilfinningu“ gagnvart Noregi, og á án efa eftir að sækja landið heim, heimsækja vini sem ég hef eignast hér og njóta þess að ferðast um þetta fallega land sem Noregur er,“ segir hún enn fremur og er því næst spurð út í þau verkefni er hve mest hefur farið fyrir í starfi hennar.

„Að vanda er stór þáttur starfseminnar í því fólginn að þjónusta þann stóra hóp Íslendinga sem búsettur er í Noregi, en eins og gefur að skilja var mikið álag á okkar litla sendiráði í faraldrinum. Að því slepptu, er það okkar meginverkefni að greiða fyrir samskiptum stjórnvalda og viðskiptalífs í ríkjunum tveimur, að koma á tengslum, afla upplýsinga og bregðast við öllum þeim ólíku úrlausnarefnum sem upp koma í samskiptunum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og ráðherra norrænna samstarfsmála, …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og ráðherra norrænna samstarfsmála, var staddur á ráðstefnu í Ósló þegar Ingibjörg kvaddi og lét sig ekki vanta. Tók ráðherra til máls og ávarpaði sendiherrann og aðra viðstadda. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Af einstökum efnisflokkum hef ég alltaf litið svo á að leggja þyrfti sérstaka rækt við menninguna, því það er hún sem ryður braut fyrir svo margt annað. Hér á ég ekki bara við bókmenntir, tónlist, kvikmyndir og myndlist, heldur einnig nýrri greinar, svo sem hönnun og nýsköpun, að ekki sé talað um ferðaþjónustuna,“ segir Ingibjörg.

Blóm sem þarfnast vökvunar

Hún kveður öll almenn samskipti njóta góðs af þessum grunni. Ísland á náið samstarf við Noreg á öðrum vettvangi einnig um Evrópska efnahagssvæðið (EES), fríverslun og öryggis- og varnarmál. Það hljóti alltaf að vera eitt af meginhlutverkum sendiráðs Íslands í Noregi að hlúa að sameiginlegum arfi ríkjanna. „Og menningin er blóm sem þarfnast reglulegrar vökvunar,“ segir Ingibjörg.

Spurð út í eftirminnileg menningarverkefni nefnir hún sem nýjasta dæmi afhendingu „síðustu síldartunnunnar“ á Íslandi nú í vor. „Að frumkvæði sendiráðsins var þá tunna, sem fallið hafði útbyrðis þegar síðasta skipið flutti farm af síldartunnum til Íslands frá Dalsfirði í Noregi um miðjan níunda áratuginn, afhent Síldarminjasafninu á Siglufirði við hátíðlega athöfn. Þessi viðburður var táknrænn fyrir sameiginlega sögu og menningararfleifð ríkjanna, því norskir útgerðarmenn höfðu átt stóran þátt í þeirri efnahagslegu velsæld sem varð á Íslandi á tuttugustu öld eftir að við lærðum af þeim að veiða síldina sjálf, verka hana og selja á mörkuðum í útlöndum. Þessi arfleifð frænda okkar í Noregi er enn sýnileg á Íslandi, til dæmis á Seyðisfirði og Siglufirði. Þannig kórónaði afhending tunnunnar á vissan hátt hundrað ára síldveiðasamstarf Íslands og Noregs,“ segir Ingibjörg af síldartunnuafhendingunni.

Ingibjörg flytur ávarp við afhendingu síðustu síldartunnunnar á Síldarminjasafninu á …
Ingibjörg flytur ávarp við afhendingu síðustu síldartunnunnar á Síldarminjasafninu á Siglufirði í vor. Það var Íslandsvinurinn Petter Jonny Rivedal sem afhenti tunnuna formlega. Ljósmynd/Aðsend

Grísk-íslenskur stórviðburður

Talið snýst að samskiptum við önnur ríki í umdæmi íslenska sendiráðsins í Noregi, en forstöðumaður sendiráðsins fer einnig með fyrirsvar gagnvart Grikklandi, Egyptalandi, Íran og Pakistan. „Hvert á sinn hátt eru þetta mikilvæg ríki,“ segir Ingibjörg. „Illu heilli kom faraldurinn í veg fyrir að ég næði að heimsækja önnur þessara umdæmisríkja en Grikkland. Samstarf okkar við Grikki hefur verið með miklum ágætum og spennandi samstarfsmöguleikar víða. Sem dæmi um blómstrandi samstarf Íslands og Grikklands vil ég nefna Head2Head-listahátíðina sem haldin var í Aþenu í nóvember á síðasta ári og sendiráðið studdi dyggilega við og naut einnig fjárstyrks úr tvíhliðasjóði uppbyggingarsjóðsins [EEA Grants],“ heldur hún áfram.

Á hátíð þessari sýndu 45 grískir og íslenskir listarmenn verk sín í ellefu listamannareknum galleríum eða rýmum og segir Ingibjörg frá því að til standi að spegla hátíðina haustið 2023 í Reykjavík. Verði þar um að ræða samstarfsverkefni listamannarekinna gallería, Kling og Bang og A-Dash. „Ég hef grun um að þetta hafi verið einn stærsti viðburður sem skipulagður hefur verið í samskiptum Íslands og Grikklands á menningarsviðinu,“ segir hún.

Sendiherrann fráfarandi kastar kveðju á gesti sína og fer yfir …
Sendiherrann fráfarandi kastar kveðju á gesti sína og fer yfir tímabil sitt í Noregi auk þess að þakka samstarfsfólki í sendiráðinu vel unnin störf, Norðmönnum gestrisni og velvild alla tíð og sendierindrekum annarra þjóða ánægjuleg samskipti og samstarf. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Eins gefi það starfi sendiherra í Noregi sérstakan blæ að þar séu samtals 39 sendiráð með fyrirsvar gagnvart Íslandi, þar af þrettán ESB-ríki, sem séu ekki fleiri í öðrum höfuðborgum.  Sendiherra Íslands sé í reglulegum samskiptum við forstöðumenn allra þessara sendiráða og njóti góðs af þeim, þótt óneitanlega fylgi þeim aukinn erill fyrir sendiráðið.

Fjölmenningarlegt norskt samfélag

„Jafnvel hjá frændþjóð sem við eigum svo margt sameiginlegt með kemur ýmislegt á óvart við nánari kynni,“ svarar fráfarandi sendiherra spurningu um hvort nokkuð hafi komið á óvart í ranni frændþjóðar. „Þrátt fyrir skyldleika þjóðanna og tungumál af sama stofni, þarf að hafa hugfast að Noregur er fjölmenningarlegt samfélag sem auðgast hefur af blöndun við fólk frá öðrum heimkynnum. Norðmönnum hefur að mínum dómi tekist vel upp við móttöku fólks af erlendum uppruna sem hér hefur fest rætur.

Ingibjörg kveðst full tilhlökkunar og spennt fyrir næstu ævintýrum.
Ingibjörg kveðst full tilhlökkunar og spennt fyrir næstu ævintýrum. Ljósmynd/Myriam Marti Photography

Þetta sést meðal annars af eftirtektarverðu framlagi aðfluttra til stjórnmála- og atvinnulífs í Noregi. Þegar ég heimsótti forseta norska Stórþingsins, Masud Gharahkhani, fyrr á þessu ári kom mér skemmtilega á óvart þegar hann sagði  mér að hann hefði flutt ásamt fjölskyldu sinni frá Íran fimm ára að aldri og þá aldrei heyrt talaða norsku,“ segir Ingibjörg. 

Eins hafi umfangsmiklar breytingar á ásýnd norsku höfuðborgarinnar síðastliðin fimm ár komið töluvert á óvart. „Í Ósló hefur átt sér stað mikil uppbygging í kringum höfnina, þar sem glæsileg listasöfnin standa nú í fremstu röð, auk nýstárlegra íbúðabygginga, Óperunnar og Deichman-bókasafnsins. Vafalaust má að miklu leyti þakka það hinni einstöku byggingarlist Norðmanna að Ósló er nú í hópi mest aðlaðandi borga í Norður-Evrópu,“ vill hún meina.

Hege Hertzberg, aðstoðarráðuneytisstjóri norska utanríkisráðuneytisins, kveður Ingibjörgu með virktum og …
Hege Hertzberg, aðstoðarráðuneytisstjóri norska utanríkisráðuneytisins, kveður Ingibjörgu með virktum og þakkar henni vel unnin störf í kveðjuhófi íslenska sendiherrans í lok júní. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Störf utanríkisþjónustu snúist ekki um ímynd

„Mér hefur stundum fundist menn velta því of mikið fyrir sér hvernig utanríkisþjónustan komi öðrum fyrir sjónir,“ svarar Ingibjörg, innt eftir því hvort störf íslenskrar utanríkisþjónustu séu nægilega metin að verðleikum. „Störf hennar eiga ekki að snúast um hana sjálfa eða ímynd hennar, heldur er aðalatriðið að hún sé dæmd af verkum sínum frekar en því sem sagt er um hana. Til þess að svo megi vera þarf hún að hafa á að skipa hæfileikafólki og góðum  stjórnendum, því utanríkisþjónustan getur hvorki verið betri né verri en fólkið sem velst til starfa fyrir hana,“ segir Ingibjörg.

Í júní var Ingibjörg sæmd stórkrossi hinnar konunglegu norsku þjónustuorðu …
Í júní var Ingibjörg sæmd stórkrossi hinnar konunglegu norsku þjónustuorðu fyrir embættisstörf í þágu samskipta Íslands og Noregs. Orðunni tók hún við úr hendi Tore Hattrem, ráðuneytisstjóra norska utanríkisráðuneytisins. Ljósmynd/Aðsend

Utanríkisþjónustan sé í eðli sínu íhaldssöm stofnun og þarfnist hvort tveggja kjölfestu og fyrirsjáanleika til að geta gegnt hlutverki sínu. Þó skipti það ekki minna máli að hún sé vel í stakk búin til að bregðast við aðstæðum og aðlaga sig þeim breytingum sem eru að verða í heiminum í kringum okkur. „Tæknilegar nýjungar munu til dæmis gera kröfur til okkar um margvíslegar breytingar og skapa tækifæri til að gera hlutina á hagkvæmari hátt en við höfum átt kost á hingað til.“ 

Heldur heim full tilhlökkunar

Undir lok fróðlegs viðtals við sendiherrann fráfarandi þykir rétt að forvitnast um hvað nú bíði Ingibjargar. „Ég hafði hugsað mér fyrst um sinn að taka út það leyfi sem safnast hafði upp í faraldrinum, þegar ekki gafst kostur á að víkja af vettvangi,“ svarar hún. Hvað við taki að því loknu sé hins vegar ekki afráðið. „Ég er þakklát fyrir þau 23 ár sem ég hef átt kost á að taka virkan þátt fyrir Íslands hönd í alþjóðastarfi og gæti vel hugsað mér frekari verkefni á þeim vettvangi síðar. Á hinn bóginn hef ég alltaf litið svo á að það væri heilbrigt fyrir bæði stjórnsýsluna og atvinnulífið að aukinn samgangur væri þar á milli, eins og tíðkast víða um lönd.

Orðan ásamt fylgiskjali sem Haraldur V Noregskonungur ritar nafn sitt …
Orðan ásamt fylgiskjali sem Haraldur V Noregskonungur ritar nafn sitt undir. Ljósmynd/Aðsend

Raunar efast ég ekki um að sú reynsla, þekking og viðamikið tenglanet sem ég hef aflað mér í opinberu starfi bæði á Íslandi og erlendis gæti nýst ekki síður utan veggja Stjórnarráðsins. Hvað við tekur verður þó framtíðin að skera úr um. Ég get hins vegar sagt þér að ég er full tilhlökkunar og spennt fyrir næstu ævintýrum,“ lýkur Ingibjörg Davíðsdóttir, fráfarandi sendiherra Íslands í Noregi, máli sínu við lok þriggja ára starfstíma í ranni frændþjóðarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert