Ekki tókst að færa lík Johns Snorra og grafa þar sem vinir hans og samferðamenn Ali Sadpara og Jaun Pablo eru grafnir. Þessu greindi Lína Móey Bjarnadóttir, ekkja Johns Snorra, frá í sögu sinni á samfélagsmiðlinum Instagram í dag.
Fjölskylda Johns ferðaðist til Pakistans fyrr í vikunni í þeim tilgangi að ljúka leiðangri hans á fjallinu K2, þar sem John, Sadpara og Pablo fórust í febrúar á síðasta ári. Síðasta sumar fór sonur Sadpara upp á fjallið til þess að færa lík föður síns til greftrunar og var Pablo síðar grafinn á sama stað. Um er að ræða gríðarlega erfiða og hættulega för.
„Ég varð fyrir ótrúlegum vonbrigðum. Ekki út í þá, heldur að það hafi ekki verið hægt að gera neitt. Ég hugsa bara að ég hefði viljað vera í grunnbúðum og getað verið í betra sambandi við alla þarna,“ sagði Lína Móey í sögu sinni.
Hún mun nú eiga fund með einhverjum þeirra sem reyndu við verkefnið og leita annarra leiða.
„Nú erum við í rauninni að reyna að koma upp með annað plan.“