„Mikill skortur á dýralæknum, alla vega þjónustudýralæknum í dreifðari byggðum, er mikið áhyggjuefni,“ segir Bára Eyfjörð Heimisdóttir, formaður Dýralæknafélags Íslands. Enginn dýralæknir verður á bakvakt á svæðinu frá Hornafirði og austur á Djúpavog dagana 29.-31. júlí, samkvæmt Matvælastofnun. Þá eru stöður eftirlitsdýralækna í tveimur umdæmum og staða héraðsdýralæknis Suðvesturumdæmis lausar til umsóknar.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.
Bára segir að erfitt hafi reynst að manna dýralæknastöður í dreifðari byggðum. Þar má t.d. nefna héraðsdýralækna og þjónustudýralækna sem ganga vaktir. Dýralæknafélagið hefur reynt að greina hvers vegna erfitt er að fá dýralækna í þessar stöður.
„Stóra ástæðan eru starfsskilyrði dýralækna, sérstaklega varðandi bakvaktir. Skortur á dýralæknum getur líka alveg verið hluti af þessu,“ segir Bára.
Hún segir að t.d. á Höfn í Hornafirði sé einn dýralæknir. Hann er mjög mikið á vakt og fær litlar afleysingar. Dýralæknirinn þarf stundum að fá frí og ef ekki fæst afleysing, er engin þjónusta. Þetta er ekki bundið við landsbyggðina. Ekki tókst t.d. að manna bakvaktir hjá dýralæknum sem sinna stórgripum á höfuðborgarsvæðinu fyrr í sumar.
Meira í Morgunblaðinu í dag.