Magnús Kjartan Eyjólfsson, sem mun stýra brekkusöngnum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, hitar upp fyrir helgina í kvöld klukkan 19:30 með brekkusöng á lokahátíð tónlistarhátíðarinnar Hjarta Hafnarfjarðar sem hefur staðið yfir síðustu tólf vikur.
Hjarta Hafnarfjarðar fer vanalega fram í Bæjarbíó í Hafnarfirði og fyrir aftan Bæjarbíó í stóru tjaldi en í kvöld er stefnt að því að upphitun Magnúsar fyrir Þjóðhátíð fari fram í Sýslumanns brekkunni á bak við A. Hansen skammt frá tjaldinu.
Magnús segir þó að ef illa rætist úr veðrinu í kvöld gæti brekkusöngurinn í kvöld verið án brekku.
„Það stendur til ef veður leyfir að halda þetta utandyra og í brekku. Ef það verður of mikil rigning þá erum við hálfa mínútu að hlaupa inn í tjald,“ segir Kjartan og bætir við að ef allt fer á versta veg verði brekkusöngurinn í kvöld brekkulaus.
„Þetta gæti orðið að bekkjarsöng í staðinn,“ segir Magnús kíminn og vísar til bekkjanna inn í tjaldinu.
Hann segist þá ætla vera með svipað lagaval í kvöld og hann mun vera með í Eyjum. Aðspurður segir hann frábæra æfingu og upphitun vera fólgna í þessu fyrir sig fyrir komandi helgi.
„Það verður kannski ekki nákvæmlega sama prógramm en maður er ekki beinlínis að finna upp hjólið í þessu. Þetta er mjög góð upphitun bæði fyrir mig og þá sem ætla að skella sér til Eyja um helgina.“
Spurður hvort að þetta sé þjófstart á sæluna á sunnudaginn svarar Magnús því neitandi. „Það er erfitt að bera þetta tvennt saman.“
Hann segist þá mjög spenntur fyrir því að stýra brekkusöngnum á sunnudaginn og að mikil viðbrigði verði að stýra brekkusöngnum með fólk í brekkunni. Magnús stýrði einnig brekkusöngnum í fyrra en þá var ekki haldin Þjóðhátíð og brekkusöngnum var sjónvarpað sökum kórónuveirufaraldursins.
„Þetta verður í fyrsta skipti sem ég fæ að hafa fulla brekku fyrir framan mig og það er mjög sérstakt,“ segir Magnús og bætir við að engin hætta sé á því að brekkusöngurinn á Sunnudaginn verði brekkulaus.
Í lok samtalsins ítrekar Magnús mikilvægi þess að fólk virði mörk annarra og minnir fólk á átakið Verum vakandi. „Látum annað fólk skipta okkur máli.“