Greindist með apabólu

Alls hafa nú tíu tilfelli greinst á landinu.
Alls hafa nú tíu tilfelli greinst á landinu.

Karlmaður á miðjum aldri greindist í gær með apabólu. Er þetta í tíunda skiptið sem apabólusmit greinist hér á landi, að sögn Guðrúnar Aspelund yfirlæknis á sviði sóttvarna hjá embætti landlæknis.

16 þúsund hafa greinst með apabólu á heimsvísu, í 75 löndum utan Afríku. Fimm hafa dáið vegna sjúkdómsins og lýsti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin yfir neyðarástandi vegna hans í síðustu viku.

Sporna við því að sjúkdómurinn breiðist út

„Þetta er eitthvað sem við erum að fylgjast með og erum vakandi yfir,“ segir Guðrún og segir að fyrst og fremst þurfi að sporna við því að sjúkdómurinn verði landlægur í fleiri löndum en áður. 

„Síðan vaknar alltaf upp sú spurning hvers vegna þetta er að gerast og hvort einhver breyting hafi orðið á veirunni. Það er hluti af ástæðu þess að yfirvöld eru á varðbergi.“

Fyrstu tilfelli apabólu greindust á Íslandi í júní á þessu ári en þau smit mátti rekja til ferðalags til Evrópu. Von er á bóluefni til landsins á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka