Öll starfsemi Icelandair er umhverfisvottuð og félagið hefur sett sér „skýr og metnaðarfull“ markmið um kolefnislosun, að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair sem sendi mbl.is skriflegt svar við fyrirspurn um þá gagnrýni sem ný „lúxusferð“ Disney, sem farin verður með vél Icelandair, hefur hlotið vegna gríðarlegrar koltvísýringslosunar.
Flugvélaeldsneyti sem þarf að brenna til að knýja flugvélina fyrir ferðina myndi samtals losa 462 tonn af koltvísýringi eða 6,2 tonn á hvern farþega. Kemur fram í frétt Guardian að það sé 20 sinnum meira en manneskja í lágtekjulandi losar á einu ári.
Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, segir málið vera dæmi um óhóf og neyslu sem „leiðir okkur sem heimssamfélag í ógöngur.“
Hann segir í samtali við mbl.is að það er þó erfitt að fordæma einstök tilvik.
„Við berum ábyrgð sem einstaklingar en við verðum að taka á loftslagsvandanum sem heimssamfélag. Nýtni og hófsemd er dyggð, en sameiginlegar reglur og losunargjöld er nauðsynlegt meðal gegn loftslagsvánni.“
„Um er að ræða leiguflugsverkefni í gegnum dótturfélag Icelandair, Loftleiðir. Markmið Loftleiða er meðal annars að nýta flota og áhafnir Icelandair betur þegar umsvif eru minni og jafna þannig árstíðarsveifluna í rekstrinum,“ segir í svarinu frá Guðna.
„Loftleiðir hafa tekið að sér fjölbreytt leiguflugsverkefni, meðal annars heimsferðir sem þessar og er félagið þekkt fyrir góða þjónustu og sveigjanleika. Viðskiptavinir félagsins sem standa fyrir slíkum ferðum leggja allir mikla áherslu á að kolefnisjafna ferðirnar og/eða fjárfesta í loftslagsverkefnum.“
Hann segir félagið hafa skýr markmið um kolefnislosun.
„Þannig ætlar félagið að minnka losun um 50% á hvern tonnkílómetra fyrir árið 2030 og ná kolefnishlutleysi árið 2050. Félagið hefur þegar dregið umtalsvert úr losun með þeirri flotaendurnýjun sem nú stendur yfir en til að ná markmiðunum þurfa fleiri samverkandi þættir að koma til eins og frekari umbætur í rekstri, notkun á sjálfbæru eldsneyti og kolefnisjöfnun.“
Icelandair er, að sögn Guðna, virkur þátttakandi í nýsköpunarverkefnum sem munu stuðla að orkuskiptum í flugi.
„Þar má nefna samstarf við tvö nýsköpunarfyrirtæki sem vinna að tæknilausnum til þess að nýta rafmagn og vetni sem orkugjafa í farþegaflugi innanlands. Auk þess er Icelandair einn af aðalbakhjörlum Rafflugs ehf. sem flutti fyrstu rafknúnu flugvélina til Íslands.“