Lyfjastofnun hefur ákveðið að innkalla undanþágulyfið Theralene, þar sem misvísandi upplýsingar um skammtastærðir lyfsins hafa leitt til ofskömmtunar þess, með tilheyrandi eituráhrifum.
Theralene er notað við svefntruflunum barna og fullorðinna, að því er segir á vef Lyfjastofnunar en þar segir einnig að ástæða innköllunarinnar sé sú að fyrirmæli lækna um skammtastærðir lyfsins samanborið við sprautu sem því fylgir, geta verið misvísandi.
Þá er merking á sprautu sem fylgir lyfinu ekki í samræmi við fylgiseðil en umbúðir og fylgiseðill lyfsins er á frönsku.
Lyfið Theralene var útvegað í kjölfar skorts á öðru óskráðu lyfi, Alimemazine Orifarm. Alls hafa 66 pakkningar farið í dreifingu til apóteka frá 30. júní sl. og fjöldi einstaklinga sem fengið hafa lyfið afgreitt er um tuttugu talsins.
Lyfjastofnun hefur haft samband við öll apótek sem hafa afhent lyfið og eru þau beðin að hafa samband við þá einstaklinga sem hafa fengið lyfið afhent. Þeim sem hafa fengið lyfið afhent er eindregið ráðlagt að skila pakkningunni í næsta apótek.