Paulig-Santa Maria AB í Svíþjóð og Aðföng hafa ákveðið að taka úr sölu og innkalla saltaðar tortilla-flögur (Santa Maria Organic Tortilla Chips) í 125 gramma umbúðum, sem voru til sölu í verslunum Hagkaupa.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Aðföngum, sem segja þetta gert með hliðsjón af öryggi og velferð neytenda.
Ástæða innköllunarinnar er sú að í vörunni hafa náttúrulegu efnin atropin og scopolamin greinst yfir mörkum sem skilgreind eru í reglugerð. Hófleg neysla hafi þó engin heilsuskaðleg áhrif.
Viðskiptavinum Hagkaupa sem keypt hafa vöruna er ráðið frá því að neyta hennar og geta skilað henni í verslunina þar sem hún var keypt gegn fullri endurgreiðslu.