Leita ferðamanns sem hvarf fyrir tveimur vikum

Ljósmynd/Lögreglan

Um hundrað manns frá björgunarsveitum og lögreglu taka nú þátt í að leita að þýskum ferðamanni í Flateyjardal á Norðurlandi en ekkert hefur spurst til mannsins í nokkra daga. Þetta segir Karen Ósk Lárusdóttir, staðgengill upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

Rúv greindi fyrst frá en samkvæmt heimildum fréttastofunnar er maðurinn fæddur 1947 og var hann einn á ferð. Á hann að hafa skilið bíl sinn eftir við eyðibýlið Hof fyrir tveimur vikum ásamt bréfi þar sem fram kom að hann ætlaði að ganga úr Flateyjardal yfir í Fjörður og aftur til baka.

Ábending um óhreyfðan bíl

Í tilkynningu lögreglunnar á Norðurlandi eystra segir að ábending hafi komið í gærkvöldi um bifreið á erlendum númerum sem var búin að standa óhreyfð í marga daga í Flateyjardal. Lögreglan hóf strax að grafast fyrir um upplýsingar um eigandann. Þá kom í ljós að ferðamaðurinn heitir Bernd Meyer og er fæddur árið 1947. Hann kom til landsins í júní og er einn á ferð.

Aðgerðarstjórn vegna þessa máls var virkjuð á Húsavík og björgunarsveitir af Norðurlandi eystra boðaðar til leitarstarfa. Leitað er með gönguhópum, drónum og bátum. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni verður þyrla send til að aðstoða við leitina síðar í dag.

Bifreiðin sem Meyer var á er VW Transporter, dökkgrænn og …
Bifreiðin sem Meyer var á er VW Transporter, dökkgrænn og svartur. Útbúinn sem ferðabíll. Ljósmynd/Lögreglan

Náðu í eiginkonu mannsins

Samkvæmt tilkynningu lögreglu verður leit haldið áfram á meðan leitarbjart er en á morgun geri veðurspár ráð fyrir þoku á leitarsvæðinu.

Þá segir einnig í tilkynningunni að náðst hafi samband við eiginkonu mannsins í Þýskalandi sem sagði að Meyer hafi síðast verið í sambandi við hana 14. júlí og þá staddur í Flateyjardal og á leið í gönguferð. Eftirgrennslan hefur leitt í ljós að maðurinn gisti á Grenivík áður en hann fór í Flateyjardalinn.

Bifreiðin sem Meyer var á er VW Transporter, dökkgrænn og svartur. Útbúinn sem ferðabíll.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Meyer eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444-2800 eða senda skilaboð á netfangið nordurland.eystra@logreglan.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert