„Að sjálfsögðu er loftbrúin eðlileg,“ segir Arnar Már Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, inntur eftir viðbrögðum við ummælum Söru Bjargar Sigurðardóttur varaborgarfulltrúa Samfylkingar, sem hún lét falla á Twitter.
Sara hnýtti í fyrirkomulagið og tísti í vikunni: „Er ég ein um að finnast óeðlilegt að höfuðborgarsvæðið niðurgreiði flug til Reykjavíkur um 700 mkr. frá 2020 í gengum Loftbrú? Væri ekki meira jafnrétti milli fólks ef Loftbrú væri í boði fyrir alla landsmenn?“
„Fólk sem býr utan höfuðborgarsvæðisins þarf að sækja sér mikla og langmesta þjónustu á höfuðborgarsvæðið,“ segir Arnar.
Loftbrúin veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir allt að þrjár ferðir til og frá Reykjavík á ári og er hugsuð fyrir alla með lögheimili fjarri borginni og á eyjum.
Fólk þarf ekki að sýna fram á nauðsyn ferðalagsins. Finnst þér að það ætti að vera þannig?
„Ég er ekki viss hvernig ætti að útfæra það. En mér finnst mjög eðlilegt að það séu niðurgreiddar samgöngur fyrir fólk sem býr utan höfuðborgarsvæðisins til þess að það geti sótt sér þjónustu inn til höfuðborgarsvæðisins. Enda er hún að langmestu leyti þar,“ segir Arnar í lokin.
Er ég ein um að finnast óeðlilegt að höfuðborgarsvæðið niðurgreiði flug til Reykjavíkur um 700 mkr. frá 2020 í gengum Loftbrú? Væri ekki meira jafnrétti milli fólks ef Loftbrú væri í boði fyrir alla landsmenn? https://t.co/7AVSUccdyI
— Sara Björg Sigurðadóttir (@sarabjorgsig) July 25, 2022