Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur fólk til að skrifa niður hjá sér bílnúmer og lýsingar á fólki verði það vart við eitthvað óvenjulegt í nánasta umhverfi þess yfir verslunarmannahelgina. Þá er það jafnframt beðið um að taka ljósmyndir taki það eftir grunsamlegum mannaferðum, og í kjölfarið láta lögreglu vita um slíkt.
Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu þar sem varað er við innbrotum yfir verslunarmannahelgina. Þar kemur jafnframt fram að innbrotsþjófar fylgist gjarnan með húsum áður en þeir láti til skarar skríða og hringi jafnvel bjöllunni og þykist spyrja eftir einhverjum. „[O]g því er mikilvægt að hafa þessi atriði í huga,“ segir í tilkynningunni.
„Munið að það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessu tagi en einu sinni of sjaldan.“
Þá er fólk einnig minnt á að hafa útiljós kveikt þar sem þau séu til staðar til að einfalda fyrir nágrönnum að sjá umferð/mannaferðir við húsin.
Að lokum er tekið fram að lögregla verði með hefðbundið eftirlit um verslunarmannahelgina en að áhersla verði lögð á að fylgjast með íbúðarhúsnæði eins og kostur er.