Miklar áhyggjur af höfninni

Fjórðungur bryggjunnar í Reykhólahöfn gaf sig í gær.
Fjórðungur bryggjunnar í Reykhólahöfn gaf sig í gær. Ljósmynd/Aðsend

„Við höfum haft miklar áhyggjur af höfninni og höfum leitað til Vegagerðarinnar til þess að láta taka út höfnina,“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.

Um fjórðungur bryggju í Reykhólahöfn gaf sig og hrundi ofan í sjóinn í gærmorgun. Vegagerðin var við störf á bryggjunni vegna framkvæmda sem standa yfir en ætlunin er að stækka höfnina og slá nýju stálþili um bryggjuna.

„Við höfum leitað til Vegagerðarinnar til þess að láta taka út höfnina og meðal annars fengið hana til þess að bora í þilið og athuga hvort jarðvegur sé að renna undan, taka myndir af stálþilinu og fá úttekt. Þetta eru endurbætur á höfninni vegna þess hvernig komið var fyrir henni,“ segir Ingibjörg.

Um mjög mikið tjón er að ræða, að sögn hennar, og bendir hún á að þörungaverksmiðja landi á bryggjunni daglega.

Óljóst er hvort hún muni geta haldið áfram rekstri í bráð eða hvort töf verði á framleiðslu hjá verksmiðjunni.

Vegagerðin tekið málin í sínar hendur

Ingibjörg tekur þó fram að Vegagerðin sé strax búin að taka málin í sínar hendur og ætli að tryggja að starfsemi geti haldið áfram á bryggjunni sem allra fyrst.

Rob Kamsma, hafnarsérfræðingur Vegagerðarinnar sem sér um framkvæmdir á bryggjunni í Reykhólahöfn, þvertók fyrir að Vegagerðin hefði gert mistök sem gætu hafa valdið hruni bryggjunnar, í samtali við mbl.is í gær. Hann sagði hrunið hafa átt sér stað vegna samspils margra þátta. „Þetta er mjög gamalt stálþil sem er tætt og fullt af götum,“ sagði hann.

Hann staðfesti þó að Vegagerðin hefði verið að grafa þilskurð við bryggjuna áður en hún hrundi. „Við grófum langt frá bryggjunni til að koma í veg fyrir þetta en það hefur verið galli í gamla stálþilinu. Það var ekki nógu stöðugt þegar við byrjuðum að grafa frá.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert