„Þetta er allt saman lygi“

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar.
Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

„Ég þoli ekki lygi, þetta er ekki satt,“ segir Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður stéttarfélagsins Framsýnar, um skrif Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), þar sem hún segir laun í fiskvinnslu á Íslandi vera hærri en meðallaun í landinu.

„Það sem ég geri athugasemdir við er það þegar samtök eins og SFS falla í þá gryfju að láta áróðurinn bera sig ofurliði og ljúga, því þessar tölur liggja allar fyrir.

Þau fullyrða það að laun í fiskvinnslu séu þau hæstu í öllum heiminum sem og að þau séu hærri en meðallaun hér á landi, sem er bara lygi,“ segir hann í samtali við mbl.is og bætir við: „Þetta er allt saman lygi.“

Fréttablaðið fjallaði fyrst um málið.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Laun í fiskvinnslu eru ekki hærri en meðallaun

Aðalsteinn segir að sem fyrrverandi fiskvinnslumaður og talsmaður þeirrar starfstéttar um árabil hafi hann strax séð að þessar fullyrðingar SFS gætu ekki staðist.  

Kveðst hann hafa fengið hagfræðing og sérfræðing á þessu sviði til að rýna í áðurnefndar fullyrðingar SFS, en í skriflegu svari þeirra tveggja til Aðalsteins segir:

„Sé rýnt í tölfræði Hagstofunnar, má sjá að fullyrðingin er ekki rétt. Laun í fiskvinnslu eru ekki hærri en meðallaun. Á árinu 2021, voru meðallaun fullvinnandi í fiskvinnslu 611 þúsund ef miðað er við heildarlaun. Meðal heildarlaun á vinnumarkaði voru á sama tímabili 823 þúsund. Fyrir almenna vinnumarkaðinn væri meðaltalið 808 þúsund á mánuði en hæst hjá ríkisstarfsmönnum þar sem það er 903 þúsund.“

Sérfræðingurinn segir að hafa ber í huga að á bak við laun fiskvinnslufólk séu fleiri vinnustundir en gengur og gerist á vinnumarkaði. Greiddar stundir voru þannig 195 að meðaltali á mánuði hjá fiskvinnslufólki borið saman við 177 stundir að jafnaði á vinnumarkaði. Munurinn sé því meiri ef skoðað er meðaltímakaup.

Starfsfólk í fiskvinnslu. Mynd úr safni.
Starfsfólk í fiskvinnslu. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

344 þúsund útborgað fyrir 176 tíma

Á launaseðli fiskvinnslumanns sem blaðamaður mbl.is fékk sendan kemur fram að föst laun eru 387.249 kr. á mánuði. Um reynslumikinn fiskvinnslumann er að ræða sem er á hæstu launum samkvæmt kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, þ.e. í 11. flokki.

Á launaseðlinum kemur fram að hann hafi unnið 168 tíma og fengið 8 tíma til viðbótar vegna lögbundins frídags. Samtals 176 tímar. Vinnuskylda fiskvinnslufólks á mánuði eru 173,33 tímar. Þá hefur hann kaupauka/bónus kr. 308 á unna tíma á mánuði. Heildarlaun fyrir fullt starf með kaupaukagreiðslum eru tæplega 450 þúsund á mánuði. Eftir skatt fékk maðurinn um 344 þúsund í laun.

„Ég veit það sjálfur, því þegar ég var í þessu þá vann maður alveg gríðarlega mikið. Þó að vinnustundirnar hjá fiskvinnslufólki séu 173 þá var maður með 250 tíma á mánuði. Maður taldi að maður væri á ágætis launum en þá var maður í tvöfaldri vinnu til þess að hafa í sig og á,“ segir Aðalsteinn.

Hann rifjar upp að þegar hann hafi ætlað skíra barnið sitt á páskunum, þegar hann vann í fiski, þá hafi verkstjórinn spurt hvort hægt væri að fresta skírninni því hann mátti ekki við því að missa nokkurn einasta mann úr vinnu.

Vill láta SFS standa við stóru orðin

Aðalsteinn vill láta SFS svara fyrir þetta í komandi kjarasamningsviðræðum.  

„Í komandi kjarasamningum þá mun ég að sjálfsögðu hvetja til þess innan Starfsgreinasambandsins að láta SFS standa við stóru orðin,“ segir hann.

„Ég ætla að vona það að menn standi ekkert upp frá næstu kjarasamningsviðræðum fyrr en menn hafa tryggt það að laun í fiskvinnslu á Íslandi séu þau hæstu í heiminum fyrir hverja klukkustund, og að meðallaun hjá fiskvinnslufólki séu hærri en meðallaun á Íslandi.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert