Veðurspáin ekki haft áhrif á viðskiptin

Margir stefna á útilegu um helgina þó svo að veðurspáin …
Margir stefna á útilegu um helgina þó svo að veðurspáin sé ekki sú besta. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Óspennandi veðurspá virðist ekki ætla að halda aftur af landsmönnum sem ferðast nú víðs vegar um land í þeim tilgangi að halda verslunarmannahelgina hátíðlega.

Hallur Eiríksson, verslunarstjóri Rúmfatalagersins í Skeifunni, segir mikla aðsókn hafa verið í verslunina síðustu daga enda sé vikan fyrir stærstu ferðamannahelgi ársins að jafnaði annasamasti tími sumarsins. 

„Það er sama hvernig viðrar, það er alltaf mikið að gera. Það eru allir að fara eitthvað,“ segir Hallur í samtali við mbl.is.

Að sögn Halls eru vinsælustu vörurnar um þessar mundir tjöld, vindsængur, kælibox og útilegustólar, sem ætti eflaust ekki að koma mörgum á óvart. Hann segir birgðastöðuna góða og enn nóg af úrvali í boði fyrir viðskiptavini sem stefna á útilegu um helgina.

Þá hafi vikan gengið nokkuð vel og lítið hafi verið um mjög langar raðir.

„Við reynum að passa að vera vel mönnuð. Við vitum af þessum álagstímum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert