Viðgerðum lokið eftir næturlanga vinnu

Mynd tekin í gærkvöldi þegar að Borgarverk og Vegagerðin hófust …
Mynd tekin í gærkvöldi þegar að Borgarverk og Vegagerðin hófust handan við að fylla í skarðið. Ljósmynd/Aðsend

Bráðabirgðaviðgerðum á bryggjunni við Reykhólahöfn sem hrundi í gær er nú lokið og krana þörungaverksmiðjunnar bjargað þaðan sem hann var fastur hinum megin við gatið. Þá hefur löndunarstarfsemi þörungaverksmiðjunnar verið komið fyrir annars staðar í höfninni. 

Þetta staðfestir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri Reykhólahrepps í samtali við mbl.is.

Hún segir að verktakinn Borgarverk hafi í samráði við Vegagerðina hafist handa í gærkvöldi við að fylla í skarðið í bryggjunni. Að sögn Finns Árnasonar, framkvæmdastjóra Thorverks hf. sem heldur úti þörungaverksmiðjuna á Reykhólum, kláraðist verkið farsællega eftir næturlanga vinnu. 

Eins og mbl.is greindi frá er Borgarverk með verksamning frá Reykhólahreppi um að reka niður nýtt stálþil um bryggjuna en þeir hlupu núna í skarðið og aðstoðuðu við að fylla í gatið á bryggjunni.

Engin raunveruleg áhrif á rekstur

„Borgarverk var að vinna í Teigsskógi í Gufudalssveit, svo þeir gátu bara hent bílnum yfir og hjálpað okkur með þetta,“ segir Ingibjörg.

Var því hægt að keyra löndunarkrana verksmiðjunnar af bryggjunni og á annan stað á höfninni þar sem Þörungaverksmiðjan mun nú landa þangað til að framkvæmdum við bryggjuna verður lokið að fullu.

„Það er búið að koma þeim fyrir og þau geta núna landað á öðrum stað,“ segir Ingibjörg og bætir við að sem betur fer hafi tjónið á bryggjunni ekki haft nein raunveruleg áhrif á rekstur og framleiðslu þörungaverksmiðjunnar.

Flýta framkvæmdum við bryggjuna

„Þau voru búin að slá allt af þarna í gær,“ segir Ingibjörg en bendir á að nú muni þörungaverksmiðjan geta haldið áfram framleiðslu eins og venjulega.

Ingibjörg staðfestir þá að það sé búið að ákveða að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum við bryggjuna og munu þær hefjast strax eftir verslunarmannahelgina. 

Áætlað var að byrja um miðjan ágúst að reka niður nýtt stálþil um bryggjuna og gera hana þannig öruggari en eftir tjónið hefur Ingibjörg ákveðið í samráði við alla aðila að flýta framkvæmdunum.

„Þetta hefur farið eins vel og hægt er fyrst þetta gerðist,“ tekur hún fram og ítrekar hve heppilegt það var að enginn slasaðist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert